Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:53:09 (8379)

2004-05-17 12:53:09# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:53]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hæstv. landbúnaðarráðherra komist í vandræði ef hann bendir á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins máli sínu til rökstuðnings. Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er arfavitlaus en íslenska landbúnaðarstefnan er vitlausari. Við þurfum að fikra okkur í átt að betra og hagkvæmara kerfi og ekki síst íslenskum bændum til hagsbóta.

Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði að neytendur vildu hafa þetta kerfi. Ég veit ekki alveg hvaða neytendur hæstv. landbúnaðarráðherra hefur hitt en ég get fullvissað hann um að neytendur eru ekki sáttir við að greiða hærra matvælaverð en þörf er á og markaðurinn býður upp á. Íslenskir neytendur eiga ekkert að búa við eitt hæsta matvælaverð í heimi vegna vitlauss kerfis. Íslenskir neytendur eiga að geta notið kosta markaðslögmálanna og samkeppni. Ég held að það sé niðurlægjandi staðreynd fyrir hið íslenska landbúnaðarkerfi sem hæstv. landbúnaðarráðherra ver að tekjurnar af íslenskum landbúnaði sem hlutfall af landsframleiðslu eru svipaðar og styrkirnir. Það finnst mér vera niðurlægjandi staðreynd fyrir þetta kerfi sem hæstv. landbúnaðarráðherra ver með oddi og egg.

Ég held einnig að stefna hæstv. landbúnaðarráðherra lýsi afskaplega miklu vantrausti á íslensku bændur. Þeim er ekki treyst til að spjara sig á frjálsum markaði. En ég get fullvissað þingheim um að ég ber fullt traust til íslenskra bænda um að þeir spjari sig mjög vel og fái að njóta sín og sinna hlutfallslegu yfirburða sem þeir sannarlega búa yfir.