Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:56:29 (8381)

2004-05-17 12:56:29# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:56]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra ruglar saman landbúnaðarkerfinu og bændum. Hæstv. landbúnaðarráðherra er að skýla sér á bak við bændur á meðan hann ver vonlaust landbúnaðarkerfi.

Ég hef sagt áður og segi það hér að ég hef meiri trú á íslenskum bændum en þetta. Ég hef þá trú að við þurfum ekki að búa til sérstakt og afar kostnaðarsamt verndarkerfi í kringum íslenska bændur. Þeir geta spjarað sig að öllu leyti við venjulegar markaðsaðstæður (Gripið fram í.) og um það snýst það. Þetta snýst um traust á stéttinni. Þetta snýst um langtímasýn og hvernig við viljum sjá íslenskan landbúnað og þetta snýst líka um matvælaverð. En að auki (Gripið fram í.) snýst þetta líka um forgangsröðun, hvernig við viljum eyða okkar sameiginlegu fjármunum. Ég held að þeim sé illa varið í þessu kerfi og séu alls ekki íslenskum bændum til hagsbóta, alls ekki.