Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 13:02:14 (8384)

2004-05-17 13:02:14# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[13:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágæt áminning til okkar allra um það hvers vegna stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin -- grænt framboð var stofnaður vinstra megin við Samfylkinguna því hér er verið að boða óhefta markaðshyggju. Markaðslögmálin eru algild. ,,Þau hafa sannað sig og þeim á að beita óheft á öllum sviðum þjóðlífsins.`` Þetta var hv. þm. að segja.

Ég vil spyrja um eitt þegar talað er um að hafa trú á íslenskum bændum. Er það ekki að hafa trú á íslenskum bændum að ganga til samninga við samtök þeirra og er það ekki að hafa trú á íslensku samfélagi almennt að ganga til samninga við helstu samtök launafólks í landinu og hafa þau með í ráðum um gerð þessara samninga? Vísa ég þar til BSRB og ASÍ sem hafa (Forseti hringir.) komið að umræðu og mótun umgjarðarinnar í þessu efni.