Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 13:04:47 (8386)

2004-05-17 13:04:47# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[13:04]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talaði hjarta Samfylkingarinnar svo sannarlega. Að mínu mati kom þarna fram skoðun Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum þegar hv. þm. talaði um að hann vildi fara aðrar leiðir og vildi hafa frjálst kerfi og annað þess háttar. Sem betur fer sagði hann að Evrópusambandskerfið væri arfavitlaust. Það þótti mér mjög gott því að ég er algerlega sammála honum þar. Ég tel að okkar íslenska landbúnaðarkerfi sé mun betra en það. Þessi samningur er mjög góður. Hann er gegnsær. Beingreiðslur eru ekki bara fyrir bændur. Beingreiðslur eru ekki síður fyrir neytendur. Beingreiðslur eru til að halda vöruverðinu til neytenda niðri.

Veit hv. þm. hvað margir hafa atvinnu af úrvinnslu í landbúnaði? Líklegast vinna um 5 þúsund manns bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi beint og óbeint við úrvinnslu landbúnaðarafurða. Þetta er ekkert lítill hópur miðað við allar þær ræður sem voru haldnar fyrir helgina um ákveðið fyrirtæki sem menn töldu að verið væri að hluta í sundur.

Aðeins til að halda því til haga þá talaði hv. þm. um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Það er alrangt. Það er verið að bæta í þann málaflokk á hverju ári milljónum, tugum milljóna í það kerfi. En það virðist ekki duga til. Það þýðir afskaplega lítið að bera saman eins og hv. þm. gerði áðan. Við erum að halda uppi heilu þjóðfélagi, heilu samfélagi.