Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:40:07 (8394)

2004-05-17 15:40:07# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt að landbúnaðarráðherra sá sem hér stendur varð frægur á síðasta vetri fyrir rómantíska umræðu um landbúnað, fallega draumsýn um fjölskyldubú þar sem hann gaf það sterklega til kynna sem hann meinar að við eigum ekki að stefna til stóriðju eða stórbúa eins og þau gerast hjá búum sem eru á heimsmarkaði. Við erum með ákveðna byggðastefnu í framkvæmd og við vitum að fjölskyldubúin eru betur rekin og mjög vel reknar einingar í okkar búskap. Ég var því að leggja áherslu á að halda vel utan um þá rómantík og þá hugsun. Sú stefnumótun sem hér sést er því auðvitað um að þannig viljum við sjá framtíðina að þeir sem hverfa til þeirra og hagræða mjög og stækka búin verða auðvitað að taka hana á sig að stærri hluta í framtíðinni. Ríkisstyrkirnir til þeirra munu dragast saman. Það sést kannski best í töflu númer 2 á baðsíðu 8 þar sem þetta er útskýrt, það er að upp í 40 kýr er gripastuðningurinn 100% eða 15 þúsund krónur á grip og síðan frá 41--60 75%, 12 þúsund, 61--80 50% eða 10 þúsund og 81--100 niður í 25% eða 7.500 og svo núll yfir hundrað. Eins og hv. þm. rakti koma svo aftur skerðingar og stuðningurinn við þau bú sem stærst verða fellur alveg út. Stefnumótandi? Þetta er svona sú framtíðarsýn um að við höldum í skynsamlega þróun, skynsamlegan búskap og gerum okkur grein fyrir því að við trúum því að við getum rekið kúabú um allt land og eigum að gera það með þeim hætti að styrki byggðina.