Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:44:33 (8396)

2004-05-17 15:44:33# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fá að koma að nokkrum atriðum til viðbótar í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi langar mig aðeins að ræða við hæstv. landbúnaðarráðherra um þau atriði sem hann kom inn á og hafði að meginmáli við setningu búnaðarþings nýverið. Þar gat hann þess að hann hefði í hyggju að hefja gerð heildarstefnumótunar um starfsumhverfi landbúnaðarins til næstu 15--20 ára og vinna svokallaða grænbók landbúnaðarins, en markmiðið, og nú vitna ég beint ræðu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

[15:45]

,,Meginmarkmiðið hlýtur að þurfa að vera að auka sveigjanleika í íslenskum landbúnaði og landnýtingu almennt, með áherslu á aukna aðlögunar- og samkeppnishæfni landbúnaðarins, bæði í samfélagslegu og alþjóðlegu samhengi.``

Ég tek undir þennan áhuga og vilja hæstv. ráðherra í þessum efnum. En mig langar til að forvitnast um hvernig ráðherra ætli að skipa þennan hóp sem á að vinna að gerð heildarstefnumótunar fyrir starfsumhverfi landbúnaðarins.

Í þeirri tillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fluttum í þingbyrjun lögðum við eindregið til að Alþingi kysi nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Svo eru önnur atriði sem við leggjum þarna áherslu á. Þetta er á sömu nótum og ráðherra hefur síðan tekið upp í sinni ræðu við setningu búnaðarþings og er nokkur breyting fá þeirri stefnu sem hann hefur áður framfylgt í landbúnaðarmálum. Ég lýsi stuðningi við þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra.

Það er afar mikilvægt að málefni landbúnaðarins og málefni þessa atvinnuvegar sem skiptir svo miklu máli við landnotkun, landnýtingu, búsetu og atvinnulíf í hinum dreifðu byggðum landsins séu unnin í eins mikilli sátt og nokkur kostur er við helstu hagsmunaaðila í þjóðfélaginu en ekki hvað síst af hálfu Alþingis. Það skiptir afar miklu máli að á Alþingi ríki sem ríkust sátt um þær aðgerir og þá umgjörð sem þessum atvinnuvegi er búin. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann vilji bera gæfu til þess að skipa þennan starfshóp sem á að hefja gerð heildarstefnumótunar um starfsumhverfi landbúnaðarins, þannig til dæmis að allir þingflokkar á Alþingi komist þar að þannig að alveg frá fyrstu byrjun í þeirri vinnu sé af hálfu ráðherra lögð áhersla á vönduð vinnubrögð og líka samstöðu og aðkomu Alþingis og þingmanna, þingflokka að þeirri vinnu. Ég tel það mjög mikilvægt og hvet ráðherra eindregið til þess að vinna mál með þeim hætti.

Að öðru leyti um þau atriði sem ég átti eftir að koma að varðandi þennan samning þá vil ég ítrekað benda á að hér er verið að semja um lækkun á framlagi af hálfu ríkisins inn í mjólkursamninginn. Það er verið að semja um að hann lækki í heild sinni um 1% á ári á næstu átta árum. Ég tel það mjög miður. Ég tel að menn hefðu átt að sýna þann styrk til að halda að minnsta kosti óbreyttum fjárframlögum inn í þennan samning ekki síst til þess að skapa grundvöll fyrir þann sveigjanleika sem er alveg ljóst að verður að koma inn í þessa grein, inn í mjólkurframleiðsluna, þegar við fáum inn nýjar kvaðir vegna alþjóðlegra samninga um að hverfa í auknum mæli frá beingreiðslum til annarra greiðslna.

Hér eru meira að segja greiðslur á grip, sem eiga að vera ein leið til að draga áhersluna frá framleiðslutengdum greiðslum og yfir á óframleiðslutengdar greiðslur, lækkaðar. Á árinu 2006--2007 eiga þær að vera 396 milljónir en eiga að vera komnar í samningslok niður í 376 milljónir. Ekki einu sinni á þessum póstum sem verið er þó að færa yfir á óframleiðslutengda þætti geta menn haldið sjó. Það tel ég mjög miður. Ég tel að ráðherra hefði átt að beita sér fyrir því að við höldum að minnsta kosti sjó í þeim greiðslum sem eru óframleiðslutengdar. Ég legg áherslu á að við ræðum það ítarlegar í hv. landbúnaðarnefnd hvernig það megi gerast.

Einnig vil ég benda á stöðu nautgripakjötsframleiðslunnar. Í þessum samningi er gert ráð fyrir að greiðslur komi á grip. (Gripið fram í: Á kýr.) Á kýr já, eða griptengdar greiðslur, ekki gripdeildir heldur griptengdar greiðslur sem eru þá miðaðar við kýr sem hafa átt kálf að mér skilst. (Landbrh.: Kýrskýr.) ,,Kýrskýr,`` segir hæstv. ráðherrann sem er ávallt kýrskýr í sínum orðum. Ekki þegar verið er að hæla hæstv. ráðherra. Ég tel mjög mikilvægt að þetta hefði átt að koma inn í nú þegar varðandi þær kýr sem nýttar eru eingöngu í kjötframleiðslu. Þetta hefði átt að koma nú þegar inn til styðja kjötframleiðsluna. Það er 1% skerðing núna. Samningurinn veldur því að þetta skerðist um 1% á ári. Í stað þess að láta þetta skerðast um 1% á ári hefði átt að vera hægt að taka þá peninga til þess að styrkja nautakjötsframleiðsluna með þeim óbeina hætti sem hér er lagður til, ekki beint tengt á hvert framleitt kíló kjöts heldur á grip. Það finnst mér að hefði átt að skoða. Auk þess er allt afar loðið hér um það hvernig eigi að ráðstafa þessum óframtengdu greiðslum. Áætlað er að þær séu tæpar 50 milljónir árið 2007--2008. Þær eiga að vera komnar upp í 282 milljónir 2011--2012. En í samningnum er ákaflega lítil grein gerð fyrir því hvernig ætlunin er að verja þessum greiðslum önnur en að þær eiga ekki að vera beint framleiðslutengdar. Engu að síður skiptir samt máli að menn sjái fyrir í hvaða átt verið er stefna, líka í þessum efnum. Ég tel reyndar að menn megi búa sig undir í auknum mæli að færa stuðninginn yfir í óframleiðslutengda þætti.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Í núgildandi samningi eru ákvæði um ákveðna tollvernd eða viljayfirlýsing um að tollar verði ekki lækkaðir á þeim landbúnaðarvörum sem fluttar hafa verið inn samkvæmt kvótum þar um. Þessi viljayfirlýsing um að tollar verði ekki lækkaðir er felld úr þessum samningi. Það gætu verið pólitísk skilaboð um að ekki sé vilji til að beita þessum ákvæðum við að verja íslenska framleiðslu. Ég hefði viljað fá rökstuðning hæstv. ráðherra fyrir því af hverju þetta er fellt núna út úr þessum samningi. Auk þess er svo hér líka óljóst ákvæði um einhvers konar kvótamarkað í viljayfirlýsingu sem ég vil að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir. Þetta er viljayfirlýsing landbúnaðarráðherra sem fylgir með samningnum, með leyfi forseta:

,,Til að bæta samkeppnisstöðu mjólkurvara og auka hagkvæmni í mjólkuriðnaði lýsir landbúnaðarráðherra yfir vilja sínum til að skoðað verði sérstaklega hvort hægt sé að draga úr opinberum eftirlitsgjöldum ... Jafnframt lýsir landbúnaðarráðherra yfir vilja sínum til að láta kanna möguleika á samnýtingu greiðslumarks tveggja eða fleiri lögbýla.``

Einnig er viljayfirlýsing frá Bændasamtökunum um hvernig koma megi á einhvers konar kvótamarkaði eða þar sem kaupendur og seljendur greiðslumarks muni hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum er varða viðskipti með greiðslumark. Þetta er sem sagt ákveðin viljayfirlýsing um kanna það að taka upp kvótamarkað eða einhvers konar markað fyrir mjólkurkvóta. Það getur svo sem haft bæði kosti og galla. Þetta er engu að síður mál sem hefur verið mjög umrætt og skiptar skoðanir um. Þess vegna finnst mér ástæða til að landbúnaðarráðherra geri alveg sérstaklega grein fyrir þessu hér.

Að öðru leyti vil ég árétta það sem ég sagði áðan (Forseti hringir.) að ég fagna því að þessi mál eru fram komin og vona að þau fái góða meðferð í þinginu og að aðeins verði bætt um betur.