Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:55:14 (8397)

2004-05-17 15:55:14# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt hvað grænbók varðar og stefnumótun framtíðarinnar að ég ræddi það við setningu búnaðarþings og hef síðan unnið að því máli. En það er ekki formlega farið af stað og mun ég skoða allar hugmyndir í þeim efnum.

Hv. þm. ræðir um nautakjötið. Í fyrri ræðu sinni í morgun talaði hann eins og hér væri ekkert nautakjöt framleitt lengur og að sú framleiðsla væri að fara úr landinu. En hún hefur verið mjög stöðug eins og þessi tafla sýnir hér. Hún er í 3.600 tonnum og hefur verið mjög stöðug.

En af því að hér talaði frjálshyggjumaður úr Samfylkingunni eða Alþýðuflokknum gamla, þessi ungi þingmaður, þá er hér mjög athyglisverð tafla sem sýnir hvernig þróunin hefur verið á verði á nautgripakjöti hvers árs til bænda annars vegar og til neytenda hins vegar ásamt vísitölu neysluverðs. Við sjáum að vísitala neysluverðs stígur í þessa áttina. Smásöluverðið til neytenda er þar fyrir ofan og hefur hækkað en verðið til bændanna hefur fallið niður þannig að svo virðist sem markaðslögmálin hafi virkað bara á þann hátt að stórlækka verðið til bændanna og hækka það meira en sem nemur neysluvísitölu til neytenda. Þetta er því kannski það markaðumhverfi sem þessi grein hefur búið við og er verðugt að rifja það hér upp.

Mikill pólitískur vilji kemur fram í þessu til þess að standa við landbúnaðinn af hálfu þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn. Tollalögum verður aldrei breytt nema frá Alþingi og ástæðulaust að taka það fram. Ef WTO-samningar eiga sér stað og niðurstaða þeirra kemur fram þá er það auðvitað sérmál sem kemur til þingsins og þess vegna er boðað í samningnum að hann geti tekið einhverjum breytingum.

Ég kem að kvótamarkaði í mínu síðara andsvari.