Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:34:41 (8407)

2004-05-17 16:34:41# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki alveg sanngjarnt þetta síðasta sem hv. þm. sagði. Hann ætti að vita betur. Við hæstv. landbúnaðarráðherra erum báðir ættaðir frá Eyrarbakka. Ég skal hins vegar koma alveg fullkomlega ærlega með þá játningu varðandi þau frumvörp sem hér liggja fyrir að mér og okkur í Samfylkingunni hefur ekki gefist tóm til þess síðustu daga, vegna þess að önnur mál hafa verið mjög aðkallandi, að fara mjög djúpt í þetta. Eins og hv. þm. sagði hefur formaður Samfylkingarinnar kynnt sér málið. Ég hef til dæmis lesið þessa skýrslu og finnst hún merkileg að mörgu leyti. En í mjög fljótu bragði mundi ég segja eftirfarandi: Ég hef miklar efasemdir eins og ég rökstuddi áðan um að það eigi að leyfa afurðastöðvunum að vera frjálsar frá samkeppnislögunum með þeim hætti sem lagt er til í öðru frumvarpa hæstv. ráðherra. Ég dreg enga dul á að ég hefði viljað sjá töluvert meiri peninga, reyndar margfalt meira af þessum háu fjárhæðum í að efla rannsóknir og kynbætur vegna þess að ég held að það séu fjárfestingar sem skili beinhörðum arði. Ég hefði líka viljað sjá hærri grænar greiðslur og ég hefði viljað sjá þær miklu fyrr en á síðasta eða næstsíðasta ári samningstímans. Svo mætti lengi telja.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að reyna að hagræða í þessari grein og það eigi að gera með aukinni samkeppni, meiri samkeppni en nú er til staðar. Ég vil hins vegar fara að þeim breytingum með þeim hætti að það slái engan til jarðar, herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það verði að gerast á þann hátt að fótum sé ekki kippt undan neinum, það er að segja heilli atvinnugrein og að ekki sé heldur vegið að hagsmunum neytenda. Eins og ég reyndi að segja áðan í ræðu minni þá er ég dálítið hissa á því að þessi hagræðing sem hefur orðið, þessi mikla fækkun búa, skuli ekki hafa leitt til meiri lækkunar á verði til neytenda en raun ber vitni. Ég hef grun um að einhvers staðar á leiðinni sé svampur sem sjúgi þetta í sig, afurðastöðvar.