Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:37:53 (8409)

2004-05-17 16:37:53# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sem hér talaði áðan veit að annar félagi hans í þingflokknum, hv. þm. Pétur H. Blöndal, vill selja Ríkisútvarpið. Mér kemur ekki til hugar að halda því fram að það sé stefna Sjálfstæðisflokksins. Það er einfaldlega þannig að í svona málaflokkum er oft blæbrigðamunur á skoðunum manna. Ég hef talað hér sem formaður Samfylkingarinnar og í nákvæmlega sama dúr og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir talaði fyrr í dag. Okkar mál hefur legið í nákvæmlega sama farvegi.

Hv. þm. spurði hvort mergurinn málsins væri ekki sá að inn í kerfið væri byggð hagræðingarkrafa sem neytendur, framleiðendur og ríkið nytu öll góðs af. Svarið er jú. Helsti gallinn við málið sem hér liggur fyrir er að ekkert tryggir að neytendur njóti ávinnings og það finnst mér vera langverst við málið.