Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:46:05 (8414)

2004-05-17 16:46:05# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Landbúnaðurinn er mikilvæg grein. Ég held að allir á Alþingi séu sammála um það. Stuðningur við landbúnað hefur verið mikill á Íslandi. Ég held að það séu ekki margir í sölum Alþingis sem vilja að honum verði kippt í burtu og þannig fótunum undan þessari grein. En ekki er þar með sagt að menn séu almennt sammála um það hvernig að þessum málum hefur verið staðið.

Í gegnum tíðina hefur stuðningur ríkisins og Alþingis við landbúnað verið slíkur að alþingismenn og ríkisstjórnir hafa í gegnum tíðina nánast rekið landbúnaðinn á Íslandi með ótrúlegustu uppátækjum eins og því að styrkja hinar ýmsu framkvæmdir og tiltekna framleiðslu eða verkefni bænda. Því er auðvitað haldið áfram. Ég minnist þess að þegar ég var á Alþingi einhvern tíma á kjörtímabilinu frá 1990--1995 voru enn styrkir til bænda til þess að byggja haughús. Á hvaða braut eru menn í landi þar sem almennt ríkir frelsi í atvinnuvegunum og ábyrgðin er almennt hjá þeim sem reka fyrirtækin í landinu þegar Alþingi er farið að taka ákvarðanir um slíka hluti sem þá?

Við erum hér með átta ára áætlun íslenska ríkisins sem gengur út á það að reka landbúnaðinn með tilteknum hætti. Ríkisbúskapur af þessu tagi var lagður af fyrir löngu víðast hvar. En það er merkilegt að hér skuli menn halda áfram að vinna í svipuðu kerfi og hefur verið því það er ekki hægt að flýja morgundaginn. Það er öllum ljóst að til frambúðar mun þetta ekki getað staðið með þeim hætti sem það er. Ég hefði þess vegna vonast eftir því að í þessum samningi, úr því að menn ákváðu að gera hann til svona langs tíma, yrðu umtalsverð skref í þá átt að breyta styrkjunum í landbúnaði. Þá er ég ekki að tala um að draga úr þeim. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki að tala um að draga úr styrkjum til þeirrar landbúnaðarframleiðslu sem er eða atvinnustarfseminnar í byggðum landsins. En fyrir langa löngu varð mikil nauðsyn á því að á komist eðlilegt ástand í landbúnaði á Íslandi, þar sem verður atvinnufrelsi, þar sem nýliðar eiga möguleika á að koma inn í atvinnugreinarnar á svipaðan hátt og gerist í öðrum atvinnugreinum. Það getur ekki gerst í landbúnaði. Mér finnst það vera stórkostlegur galli á þessum samningi að þarna skuli menn ekki reyna að fóta sig á einhverri framtíðarhugsun hvað þetta varðar.

Hér er um að ræða verulegan stuðning við landbúnaðarframleiðsluna og allt gott um það. Þetta eru 12 þúsund krónur á hvert einasta mannsbarn í landinu á hverju ári. Það er ekki lítið. Hæstv. landbúnaðarráðherra er ákaflega ánægður og sæll með sig með þennan samning vegna þess að samningurinn tryggir honum eða ég tel að minnsta kosti ólíklegt að hann sitji svo lengi í embætti landbúnaðarráðherra að hann þurfi að hafa áhyggjur af því að gera annan samning sem þennan nema að til verði (Gripi fram í.) nýjar reglur hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem setja Íslendinga í þann vanda að þurfa að hugsa um morgundaginn. En það er ekki gert í þessum samningi. Hér hafa menn talað að sumu leyti eðlilega út frá aðstæðum okkar og þeim samningum við bændur sem hafa verið. Auðvitað eru í þessu jákvæðir hlutir ef maður hugsar það bara út frá þeim samningi sem hefur verið og ekki neinu öðru, ekki neinni annarri framtíðarhugsun. Þetta er vandamálið í þessu og mér finnst mikill skaði að menn skuli ekki hafa horfst í augu við það.

Það er mjög merkilegt finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn skuli sætta sig við að hér skuli ekki hafa verið tekið á málum með neinum afgerandi hætti hvað þessa hluti varðar. Ég tók til dæmis eftir tillögu Sambands ungra sjálfstæðismanna um að nota ætti skuldabréf til að leysa ríkið út úr vandamálum sauðfjárbænda á sínum tíma. Ýmsar tillögur hafa verið uppi af hálfu sjálfstæðismanna og gagnrýni á núverandi kerfi. Þær gagnrýnisraddir virðast vera gjörsamlega þagnaðar. Ég veit ekki betur en hv. þm. Pétur Blöndal sé til dæmis bara harðánægður með þennan samning, finnist hann bara góður. Hann mun auðvitað bera það til baka hér í ræðustól ef ég er að hafa rangt eftir skoðanir hans á samningnum.

Hér er til dæmis gert ráð fyrir því að sérstakt ákvæði verði um landbúnað þar sem menn mega hafa sama hátt á og var hafður í Öskjuhlíðinni á sínum tíma og þótti ekki par gott. Það skal gilda í landbúnaði. Áfram skal það gilda í landbúnaði að menn geti verslað með stuðningi ríkisins sín á milli en nýliðarnir sem hugsanlega vildu fara inn í þessa atvinnugrein fá enga möguleika til þess öðruvísi en að kaupa réttindin af þeim sem fyrir eru. Enn skal það standa áfram að allur aðalstuðningur við landbúnað á Íslandi skuli fara til sauðfjárframleiðslunnar og mjólkurframleiðslunnar og að öðrum sé haldið utan við stuðningskerfið. Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með slíkan samning til átta ára þar sem ekki er horfst í augu við morgundaginn. Það er mín skoðun að frelsa þurfi bændur undan forustu Bændasamtakanna og pólitískra foringja sem hafa viljað tryggja þessa stefnu til framtíðar.

Það sem segir kannski mikla sögu um hvað þetta sé góður samningur er til dæmis fullkominn stuðningur Vinstri grænna við samninginn og kröfur þeirra um að meira verði gert af þessu tagi, stærri áætlunarbúskapur á vegum ríkisins. Ég hefði talið að það væri ekkert sérstaklega eftirsóknarvert nema síður væri að lækka stuðning við atvinnulíf í sveitum eins og hér er í raun verið að gera þó ekki sé það mikið og nota ekki tækifærið til þess að breyta stefnunni þannig að stuðningur ríkisins yrði í framtíðinni meira og meira í átt til þess að styðja atvinnulífið í dreifbýli landsins, styðja atvinnulífi í sveitum. Það er gefið til kynna varðandi breytingarnar eða tilflutninginn á styrknum til þeirra sem þessi samningur gildir um --- og hann gildir um alla mjólkurframleiðsluna --- að þarna sé á ferðinni einhver stefnubreyting. En í raun og veru er þessi tilfærsla bara innan greinarinnar. Engar aðrar greinar fá neitt út úr því sem þarna er lagt til sem að neinu marki nemur. Þessar gripagreiðslur sem verið er að breyta stuðningnum að hluta til í munu fara að langmestu leyti til greinarinnar sjálfrar. Einhver pínulítill hluti mun fara til þeirra sem framleiða kjöt. Það væri kannski góð spurning til hæstv. ráðherra hve mikill stuðningur af þessum gripagreiðslum gæti hugsanlega komið í hlut þeirra framleiða nautakjöt sérstaklega. Ég hef á tilfinningunni að það verði ekki mjög mikið.

Þetta eru gallarnir á þessum samningi. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það þurfti að gera samning við bændur, mjólkurframleiðslubændur. Ég er ekki að setja út á það. Ég held því fram að nota hefði átt tækifærið til að breyta landbúnaðarstefunni þannig að hún yrði stefna morgundagsins en ekki gærdagsins. En það er hún svo sannarlega áfram.