Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:03:03 (8418)

2004-05-17 17:03:03# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra bregður á vana sinn að gera mönnum upp orð. Ég hef ekki (Landbrh.: Ég hlustaði á þig.) verið að tala þannig um landbúnaðinn eða íslenska bændur eins og hæstv. ráðherra er að gefa til kynna. Ég tel að íslenskur landbúnaður sé að mörgu leyti vel rekinn þrátt fyrir þann ríkisbúskap sem hér er í gangi. Mér finnst að menn verði að líða mönnum að hafa aðra skoðun á því hvernig eigi að horfa til framtíðar hvað varðar ríkisstuðning við landbúnað. Mér finnst að tími sé kominn til þess að menn fari að horfa til framtíðar. Það eru engar deilur um að þessi ríkisstuðningur eins og honum er háttað og hefur verið á undanförnum árum getur ekki staðið til framtíðar. Hvað gera menn þá? Þá skoða menn það hvernig eigi að standa að stuðningnum til framtíðar. Ég hef margtekið það fram að ég er ekki talsmaður þess að dregið verði úr stuðningi til atvinnuvega í sveitum. Ég hef margtekið það fram. Ég er sannfærður um að íslenskir bændur muni geta staðið sig í samkeppni sín á milli og að afurðastöðvar geti staðið sig líka í samkeppni um framleiðsluvörur til bænda í framtíðinni ef menn koma á eðlilegu samkeppnisumhverfi, ef menn eru ekki of uppteknir af því að reka sjálfir mjólkurbú sitt, en það er hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Það er þetta sem vantar. Hæstv. ráðherra er búinn að sitja of lengi á stóli landbúnaðarráðherra til þess að árangurinn sé ekki meiri en þessi til framtíðar litið.