Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:05:06 (8419)

2004-05-17 17:05:06# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁF
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:05]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Mjólk er góð, sömuleiðis jógúrt og ostur er veislukostur að sjálfsögðu. Það breytir því ekki að réttmætt er og ástæða til að gagnrýna það kerfi sem við notumst við við framleiðslu á þessum afurðum.

Ég vil nota þetta tækifæri í 1. umr. til að gera örlítinn fyrirvara fyrst og fremst vegna þess að ég tel að í þessu frumvarpi sé ekki nægjanlega horft til framtíðar. Ég get ekki séð í frumvarpinu hver sé í rauninni framtíðarsýnin fyrir íslenska landbúnað, hvað þá þegar horft er til lengri tíma en þeirra átta ára sem samningurinn nær til.

Ekki er horft til þess hvernig þessi grein eigi að komast úr ríkisrekstri til sjálfsbjargar. Ekki er tekið á því hvernig þessi grein muni í framtíð geta nýtt sér krafta markaðarins. Ég er þeirrar skoðunar að samkeppni og lögmál markaðarins séu þeirrar gerðar að þau efli og styrki sérhverja starfsgrein. Ég held að landbúnaðurinn sé engin undantekning þar á. Ég held að samkeppni sé ekki síður neytendum holl og heppileg.

Ég sakna þessa að í þessu frumvarpi sé ekki með einhverjum hætti tekið á þeirri spurningu hvernig þessi undirstöðuatvinnugrein á landsbyggðinni eigi að lifa okkur af, okkar kynslóð. Ég er ekki talsmaður byltinga eða gagngerra breytinga á skömmum tíma. Ég held að það sé afar mikilvægt að það sé stöðugleiki í svona mikilvægri atvinnugrein. Stöðugleikinn er nauðsynlegur þar sem við vitum að fjöldi bænda hefur fjárfest verulega í þessari grein, hefur skuldbundið sig til marga ára. Því er nauðsynlegt að stöðugleiki ríki í þessari grein. Einmitt þess vegna þurfa menn að hafa sýn til framtíðar. Því miður finnst mér nálgun stjórnvalda eða ríkisstjórnar í þessu máli minna mig gjarnan á fyrirtæki sem neita að horfast í augu við veruleikann, neita að draga upp mynd af framtíð sinni í nýjum heimi en eru stöðugt að hörfa frá einni varðstöðinni í aðra. Því miður finnast mér vinnubrögð og viðhorfin sem að baki þessu frumvarpi liggja líkjast um of þessu. Það er verið að hörfa. Það er ekki verið að takast á við þá stóru spurningu hvernig við getum leitt þessa grein til þess að standa á eigin fótum, að nýta krafta markaðarins, að sjálfsögðu bændum og neytendum til blessunar. Þennan fyrirvara vil ég hafa og vonast til þess að geta betur gert grein fyrir máli mínu í störfum landbúnaðarnefndar þar sem við munum fyrr en seinna taka á þessu.

Virðulegi forseti. Ég held að tími sé kominn til þess að helmingaskiptaflokkarnir sem hafa ráðið þessum málaflokki í áratugi og stundum á þann hátt (Gripið fram í: Og stundum með Alþýðuflokknum.) að broslegt hefur verið. Ég þarf ekki að rifja upp fyrir sumum hér inni þegar lögin voru slík að ekki mátti selja mjólk í Reykjavík sem var framleidd á Akureyri. Við erum enn þá að mínum dómi að vinna okkur út úr þeirri arfleifð. Ég vonast því til þess að í meðförum nefndar náist að horfa lengra en til átta ára.