Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:11:57 (8420)

2004-05-17 17:11:57# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við fjöllum enn einu sinni um þessa furðulegu samninga sem gerðir eru við fulltrúa bænda af hendi ríkisins. Íslenskur landbúnaður hefur í áratugi, í hálfa öld og lengur verið bundinn í mjög þröngar viðjar sem hafa gert hann að algerum ómaga. Það er furðulegt að upplifa það í núverandi umhverfi frjáls flæðis fjármagns, fólks og fyrirtækja að við séum að gera svona samning. Þetta er svipað og að sjá óræktarblett í iðjagrænu túni. Þarna eru sem sagt tveir hæstv. ráðherrar að semja við fimm fulltrúa bænda um greiðslur ríkisins til bænda í sjö ár. Greiðslurnar eru um 4.000 milljónir árlega til að byrja með. Það er um 4,5 milljónir á hvert bú og ef maður tekur tillit til þess að þetta er að mestu leyti skattfrjálst þá mundi þetta svara til um það bil 500 þúsund króna á mánuði sem um er að ræða til bændanna.

Þeir hafa ekki þessi laun, því miður. Það segir mér að framleiðni kúabúa er minni en ekki neitt. Það sem þeir afla, launin sem þeir hafa, eru undir styrknum sem ríkið er að veita. En þarna erum við að glíma við áratuga langa bindingu landbúnaðar í viðjar hafta og banna.

Að þessu sögðu, frú forseti, er ég afskaplega ánægður með þennan samning, það er að segja ef við þurfum að gera svona samninga, ef það er meiningin að hafa svona stefnu þá er ég ánægður með samninginn vegna þess að hann gefur nefnilega ákveðið ljós. Hann gefur ákveðið tákn til bænda sem ég hef nefnt í fyrri umræðum um fyrri búvörusamninga að skorti á. Hann segir nefnilega að búvörusamningurinn skuli lækka um 1% á ári. Þetta er sem sagt ekki endalaus samningur til bænda heldur er hér sagt að hann muni lækka um 1% á ári. Það er jákvætt. Það gerir það reyndar að verkum að hann lækkar um helming á 68 árum, en samt, frú forseti.

Því miður er kjörum bænda mjög misskipt. Sauðfjárbændur hafa búið lengi vel við að mega ekki framselja sinn kvóta. Þeim er haldið í litlum búum af einhverri rómantík og þeir skulu vera fátækir og fátækari og fátækari.

Önnur er staða mjólkurbænda. Þeim var heimilt mjög snemma að framselja sinn kvóta og þeir hafa gert það í stórum stíl. Búunum hefur fækkað um 40% eins og hér hefur komið fram frá 1991. Þau eru orðin það stór að afkoma þeirra er orðin þokkaleg. Menn hafa talað um að verðið hafi ekki lækkað til neytenda. Það getur vel verið að samkeppni vanti þar. En alla vega er afkoma þessara búa betri og miklu betri en afkoma sauðfjárbænda. Sauðfjárbændur, sem eiga í mjög harðri samkeppni á kjötmarkaði og spurning er yfirleitt hvort þeir geti lifað af, þyrftu því alveg sérstaklega að hafa meira frelsi til þess að framselja og fara út úr atvinnugreininni og fara í eitthvað annað. En þeir eru með framleiðslukvöð. Þeir verða að framleiða ákveðinn hluta til að fá styrkina og þeir hafa ekki mátt framselja nema alveg undir það síðasta. Kannski mun staða þeirra því batna þannig að þeir geti stækkað búin.

Inni í þessu eru bláar greiðslur og grænar greiðslur. Grænar greiðslur eru umhverfisvænar og bláar greiðslur eru til að takmarka búin. Þarna er inni nokkuð sem heitir gripagreiðslur sem er hugsað sem styrkur við litlu búin. Enn er sú hugsun í gangi í landbúnaðarráðuneytinu að lítið sé fallegt og að rómantík eigi að vera þarna og ef menn vilja endilega hafa stórbú þá ætla þeir að reyna að þvinga þá niður í lítil bú þó það sé kannski ekki hagkvæmt á nokkurn máta. Það er gert með því að bú sem eru með 40 kýr eða færri fá fullan styrk. Þau sem eru með 41--60 fá 75% styrk og svo framvegis. Ef þeir eru með fleiri en 100 gripi fá þeir ekki neitt og svo ef þeir skyldu nú slysast til að eiga meira en 171 grip þá byrja greiðslurnar sem þeir fá að skerðast þannig að bú þar sem eru 200 gripir fær ekki neinar gripagreiðslur. Þarna er sem sagt verið að hvetja og styrkja bændur sem eru með lítil bú í staðinn fyrir að láta bara hagkvæmni stærðarinnar gilda þarna ef hún er til staðar. Nú er ekkert endilega víst að betra sé að hafa stór bú heldur en lítil. En það virðist samt sýna sig.

Mikið skortir á samkeppni enn þá og enn er mjög mikið af kvöðum á bændum. Ég er viss um að hagur bænda mundi vænkast ef menn gengju örlítið hraðar í þessari hægfara breytingu á því að minnka kvaðir á bændum. Það er reyndar verið að vinna að því en mjög hægt. Vel má vera að unnið sé nægilega hratt til að bændur séu undir þá samkeppni búnir sem þeir munu óhjákvæmilega lenda í eftir nokkur ár eða svo. Ég tel að það ætti að slaka meira á klónni í landbúnaðarráðuneytinu og alveg sérstaklega gagnvart sauðfjárbændum.

Frú forseti. Ég vildi sem sagt segja að það er gleðilegt merki í þessum samningi að hann eigi að lækka um 1% á ári.