Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:30:58 (8423)

2004-05-17 17:30:58# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt mig hafa haldið ræðu um að síðustu samningar hefðu gengið vel. Ég hélt mig hafa haldið ræðu um að menn ættu ekki að breyta því sem vel hefur reynst. Ég taldi mig hafa haldið ræðu um að það sem væri helst að þessum samningi væri að menn væru að hverfa frá því sem áður var, menn væru að taka upp, því miður, fyrsta áfangann í Brussel-bullinu, að dreifa þessum greiðslum í stað þess að hafa þær til framleiðendanna sem svo vel hefur reynst. Ég er ekki að tala um minnimáttarkennd. Ráðherra snýr þessu öllu á haus. Ég er einmitt að segja að Ísland á af fullri reisn að krefjast þess, rétt eins og aðrar þjóðir gera, að tillit sé tekið til þeirra landfræðilegu legu. Við vitum að aðrar þjóðir í norðanverðri Evrópu hafa fengið samþykkt að miða þar við 62. breiddargráðu. Við sem erum á 66. breiddargráðu eigum fullan rétt á því að við styðjum okkar landbúnað. Við eigum að þora að tala um það af fullri reisn. Það er engin minnimáttarkennd í því fólgin að hafa kjark til þess að benda á rétt Íslands til þeirra hluta. Hæstv. landbúnaðarráðherra snýr hér öllu á hvolf.

Menn skulu átta sig á því að það er reginmunur á greiðslum okkar til mjólkurafurðanna og mjólkurbændanna en til sauðfjárbændanna og við megum einmitt ekki hverfa frá þessum mun. Við eigum að halda áfram að láta greiðslurnar ganga til framleiðendanna. En því miður hafa menn tilhneigingu til að fara út í hin flóknu mál. Ég var í ræðu minni einmitt að segja að þessi samningur hefði gengið mjög vel þrátt fyrir að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi farið nokkrum óvarlegum og ekki mjög vitlegum orðum um þetta. Hann talaði um að við ættum ekki að stækka búin heldur vera með lítil bú. Við þurfum nefnilega svo mjög brýnt að stækka búin.