Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:33:09 (8424)

2004-05-17 17:33:09# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gefur nú hv. þm. enn á ný og heldur áfram útúrsnúningi við saklausan mann (Gripið fram í.) því að ég hef fyrst og fremst talað fyrir fjölskyldubúum, sagt að þau séu hagkvæm. Ég hef ekki verið að tala fyrir nein smábú. Ég hef talað fyrir skynsamlegum búskap. Ég verð að segja fyrir mig að hafi einhver látið hlutina snúa á haus í ræðuflutningi í dag --- ég ætla ekki að tilgreina þá hina --- þá henti það þennan hv. þm.

Ég vil segja að þeir peningar sem fara í beingreiðslu til mjólkurinnar fara beint til bænda og ekki í neina flækju. Það er útúrsnúningur af hálfu hv. þm. Ég ætla að bjóða honum í sérstaka heimsókn upp í landbúnaðarráðuneyti þar sem ég sný ofan af þeim útúrsnúningi sem hann hefur viðhaft í dag. Hann segir að 60% af peningum sem fara í sauðfjársamninginn fari til bænda og 40% út um grundir og mýrar. Þetta er alrangt. Megnið af þeim peningum fer til bænda. Ég fullyrði að af 2,6 milljörðum fara um 2,4 beint til þeirra. Kann ég þá ekki að reikna ef þetta er niðurstaða úr útreikningi hv. þm.

Ég vil í lokin minna á að Ísland er tiltölulega gott landbúnaðarland. Veðráttan hefur batnað. Það hefur verið mjög góð veðrátta í minni landbúnaðarráðherratíð (Gripið fram í.) og vona ég að svo verði áfram. Hitastig fer hér vaxandi og því er spáð áfram. Stjórnvöld verða að halda utan um (EOK: Hitann.) málefni landbúnaðarins og semja við bændur. Samningurinn sem við höfum verið að gera við bændur um mjólkurframleiðsluna er góður og bændurnir svara því með öflugri búskap eins og þeir hafa gert á síðustu árum. Ísland er gott landbúnaðarland. Hér er hrein náttúra. Íslenskir bændur hafa ekki gert í vögguna sína. Þeir hafa sérstöðu í veröldinni hvar sem við förum vegna náttúrunnar hér, vegna búskaparfyrirkomulagsins, vegna þess hvernig afurðir þeirra mæta skilningi og áhuga um víða veröld, bæði hvað mjólkurafurðir og fyrir sauðfé. Ég vil því áminna hv. þm. um að tala ekki svona frjálslega eins og hann gerði og hafa staðreyndirnar í huga.