Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:35:48 (8425)

2004-05-17 17:35:48# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að verða boðinn í landbúnaðarráðuneyti. Það verður fagnaðarfundur þegar ég kem þangað. Ég ætla þá að nýta tækifærið þegar ég kem ef hæstv. landbúnaðarráðherra getur ekki séð að nákvæmlega 60% af styrknum, beingreiðslunum í sauðfjárræktinni, fer til sauðfjárræktarinnar. Ef hann vill ekki fallast á það þá býðst ég til þess að hjálpa honum með litlu margföldunartöfluna þegar ég kem í heimsókn þangað. Þá getum við farið yfir það aftur og gáð hvort við verðum ekki sáttir um að þetta séu 60% sem ég vona innilega að takist.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti heldur að beina kröftum sínum í einhverjar aðrar áttir en að mótmæla þeim manni sem hefur þó verið að gagnrýna þennan samning fyrir það eitt að hann muni gagnast bændum betur ef menn væru ekki að fara eftir þessu Brussel-rugli. Hann ætti að fagna því að slíkur talsmaður væri á Alþingi. Honum er styrkur í því frekar en hitt vegna þess að það þarf mjög á því að halda að þora að tala um þetta, þora að segja að þetta sé engin niðurlæging eins og oft er verið að segja bændum heldur sé rétt og mjög þjóðhagslega nauðsynlegt að styrkja okkar landbúnað. Það er sérstaklega ánægjulegt þegar við getum bent á það með óyggjandi rökum að sá styrkur hefur gengið til þess að efla hann, auka framleiðnina í greininni og auka kaupmáttinn í afurðunum fyrir Íslendinga.