Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:49:08 (8429)

2004-05-17 17:49:08# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra gefa í skyn að hann hefði ekki kannað það en þó væri hugsanlegt að þetta hefði talsverð áhrif á landaðan afla í Norðvesturkjördæminu. Ef svo er að menn komast að þeirri niðurstöðu í nefnd væri hann væri þá tilbúinn að endurskoða þetta, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur haldið því fram að sérstaklega beri að huga að atvinnuástandi í Norðvesturkjördæminu vegna þess að þar er staðan slæm? Menn geta varla komið með frumvarp alveg þvert á byggðastefnu. Mér finnst alveg með ólíkindum að láta sér detta það í hug.

Síðan er annað atriði. Hefur hæstv. ráðherra hugað að því að þetta mun ef til vill hvetja til brottkasts á fiski, það er að landaður afli mun ekki endurspegla veiddan afla? Telur hann ekki að það muni virka sem aukinn hvati til brottkasts í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu að koma rúmlega 300 bátum í kvótasetningu?