Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:51:41 (8431)

2004-05-17 17:51:41# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. 17. maí árið 2004 er svartur dagur í fiskveiðisögu íslensku þjóðarinnar. Þetta frumvarp sem liggur hér fyrir er svo vont að mig verkjar í augun þegar ég les það. Þetta er svívirðileg aðför að sjávarbyggðum Íslands. Það er svívirðileg aðför þetta frumvarp. Það er gersamlega óskiljanlegt að menn skuli láta sér detta það í hug að leggja þetta fyrir hið háa Alþingi og ég vona að þetta verði kolfellt. Ég mun alla vega sjá til þess að reyna að vinna að því af öllum mætti að það verði kolfellt.

Hæstv. forseti. Þegar ég les frumvarpið hnýt ég um nokkur atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um. Í fyrsta lagi: Hvernig hafa höfundar frumvarpsins fundið það út að aldrei megi vera fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í báti? Hvaða vísindalegar rannsóknir liggja því til grundvallar að þessi tala er ákveðin, fjórar rúllur á bát? Þetta er mín fyrri spurning, hæstv. forseti.

Mín síðari spurning er: Hvaða vísindalegu rannsóknir liggja að baki því að settar eru reglur um sóknardagafjölda út frá vélarstærð báta? Mér þætti vænt um að hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti vitnað í hvaða vísindalegu rannsóknir liggja þarna að baki því eins og við öll vitum er hann mjög hrifinn af öllu sem viðkemur vísindum þegar fiskveiðar og fiskveiðistjórn er annars vegar.