Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 18:02:54 (8439)

2004-05-17 18:02:54# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er hluti af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið í sjávarútvegsmálum. Þar eru menn ekki í rónni á meðan nokkur branda sem syndir í kringum Ísland er munaðarlaus, meðan hún er ekki í eigu einhvers. Það hefur verið þannig alveg frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við að þarna hefur verið reynt að finna allar leiðir til þess að taka tegundir inn í kvóta og koma þeim út úr smábátakerfunum sem hafa þar verið.

Við stöndum frammi fyrir því núna að sjávarútvegurinn er orðinn harðlokuð atvinnugrein og að þau pínulitlu skráargöt sem voru í þessari atvinnugrein, hafa verið í smábátakerfinu, verði í framtíðinni líka lokuð. Í nánustu framtíð er ekki sjáanleg nokkur einasta nýliðun og varla hefur verið hægt að gefa henni það nafn á undanförnum árum. Stjórnvöld sýna enga viðleitni í þá átt að opna þessa atvinnugrein með nokkrum hætti fyrir nýjum aðilum. Afleiðingin er sem sagt þessi: Atvinnugreinin er lokuð. Það er álíka kerfi í gangi og í landbúnaðinum hvað atvinnuréttindi manna varðar. Afleiðingarnar fyrir byggðarlögin eru auðsæjar fyrir langalöngu, það er að unga fólkið í byggðarlögunum sér ekki framtíð í sjávarútvegi, missir trúna á byggðarlögin og flytur í burtu.

Núna hefur hæstv. ráðherra lagt fram frumvarp sem ber með sér alveg klárlega, ef það verður að lögum á Alþingi, endalok dagakerfisins þar sem lítils háttar aukning á veiði hefur orðið á undanförnum árum vegna þess að menn hafa þar verið að stækka báta og gera þá hæfari til veiða. Þetta hefur farið svo fyrir brjóstið á þeim sem telja sig eiga Íslandsmið að þeir hafa ekki verið í rónni. Þarna eru munaðarlausar bröndur og það verður endilega að finna eigendur þeirra. Núna er frumvarp komið fram þar sem notaðar eru tvær aðferðir. Önnur er þvingandi aðferð sem setur menn í þá stöðu að fjárfestingar sem þeir hafa farið í eru ónýtar og að útgerðin sem þeir keyptu getur ekki gengið til framtíðar. Eina leið þeirra margra er þá sú að flytja sig yfir í krókaaflamarkið og selja veiðiheimildirnar vegna þess að svo mikið minnkar réttur þeirra til veiða að þeir munu ekki geta framfleytt sér á því að gera út bátana sína í framhaldinu. Ég held því fram alveg hiklaust að um sé að ræða verulegan hóp manna sem eru í þessum útgerðum.

Hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðu sinni að komið hefði fram hópur sem hefði þrýst á að fá kvótann á. Ætli honum hafi ekki verið tekið fagnandi þessum hópi akkúrat vegna þess að stjórnvöld hér hafa gjarnan viljað og hafa haft viðleitni til þess alla tíð að losna við þetta kerfi. Byggðaáhrif þessara aðgerða munu auðvitað verða þau að á þeim stöðum þar sem dagabátar hafa verið björgin á sumrin, aukning í atvinnulífinu, mun þetta hverfa og við munum sjá fram á að það sem það gerði fyrir þessi byggðarlög er úr sögunni. Þetta mun koma að langmestu leyti niður á Norðvesturkjördæmi og alveg sérstaklega niður á Vestfjörðum. Mér finnst full ástæða til þess að þingmenn Norðvesturkjördæmis ræði þessi mál nú við þessa umræðu. Sérstaklega vil ég minna á stóran fund sem var haldinn á Ísafirði fyrir ekki löngu síðan þar sem ég hygg að langflestir þingmenn Norðvesturkjördæmis tóku sér fyrir brjóst og sögðu að þeir mundu sjá til þess að dagakerfið fengi að vera áfram við lýði. Ekki sýnist mér að efndir séu að verða á þeim svardögum með því frumvarpi sem hæstv. ráðherra er að leggja fram.

Hæstv. utanrríkisráðherra, væntanlegur forsætisráðherra 15. september í haust, lét hafa eftir sér að nú væri komið að byggðaaðgerðum fyrir norðvestursvæði landsins. Það er komin ástæða til þess að hann svari því hvort þetta sé sú byggðaaðgerð sem hann átti þá við. Ég er hræddur um að hún muni ekki færa mörg störfin í það kjördæmi sem hér um ræðir og mun verða mest fyrir barðinu á því sem hér er að gerast því það er alveg ljóst að þetta mun gerast. Það er svo einfalt að þetta frumvarp mun hafa í för með sér að þeir sem flytja sig yfir í krókaaflamarkskerfið munu langflestir hætta að sigla á þessa staði til að veiða á sumrin. Bæði er það vegna þess að réttur þeirra til veiða mun í tonnum talið minnka ákaflega mikið. Þeir munu þess vegna ef þeir koma annars staðar frá reyna að veiða á einhverjum öðrum tímum og reyna að fá hærra verð en þeir hafa fengið.

Ráðherrann talaði í ræðu sinni eins og hann væri að efna eitthvert loforð um að setja gólf í þetta svokallaða dagakerfi. Það er ekki aldeilis þannig. Það er ekkert vafamál hverjir verða eftir í dagakerfin. Það verða þeir sem verða með svo litlar veiðiheimildir að þeir treysta sér ekki til að flytja sig yfir. Þar með verður potturinn sem er á bak við þá svo lítill að það er alveg klárt mál miðað við ákvæði frumvarpsins að dagafjöldi þeirra mun minnka mjög mikið og hratt. Það er þess vegna ekki verið að setja gólf í dagakerfið.

Svo er annað. Takmarkanir á vélarstærð voru nefndar áðan. Það er alveg ljóst að það ákvæði er afturvirkt og stenst ekki og örugglega verða gerðar skaðabótakröfur á stjórnvöld vegna þessa ákvæðis. Menn sem hafa tekið ákvarðanir um fjárfestingar í þessu kerfi munu lenda í virkilega erfiðum málum.

Ég tel að hér hafi menn stofnað til máls sem ekki geti farið í gegnum Alþingi í því formi sem það er lagt fram og ég tel að full ástæða sé til þess að skoða það vandlega í sjávarútvegsnefnd þingsins með það fyrir augum að breyta því þannig að staðið verði við yfirlýsingarnar um að standa við bakið á byggðarlögunum í landinu, sjávarbyggðunum, en að það verði ekki gert með þeim hætti sem hér er til stofnað að draga verulega úr möguleikum þar í framtíðinni til þess að hafa atvinnu af sjávarútvegi.

Merkileg niðurstaða hefur orðið þarna. Hún gengur út á að búa til kvóta með tilteknum reiknireglum sem eru þannig fram settar að ég giska á að bátar sem flytja sig yfir í krókaaflamarkið fái liðlega 50% eða á milli 50% og 60% af þeirri veiðireynslu sem til staðar er á hverjum bát. Þrenns konar skerðingar eru á ferðinni eða þrenns konar reiknireglur til skerðingar eru notaðar. Í fyrsta lagi velja menn betra árið af tveimur síðustu árum. Svo þegar búið er að reikna út hve mikið hópurinn fær út úr því þá er skert niður í tiltekna tölu sem er á milli 11 og 12 þúsund tonn sem mun samkvæmt útreikningum þeirra hjá Landssambandi smábátaeigenda þýða 22% lækkun frá þeirri tölu. Þar eftir skulu menn fá 80% af 50 tonnum sem þeir hafa hugsanlega fengið í aflareynslu og síðan 60% af afganginum. Til viðbótar kemur svo skerðing sem verður þannig til að allir sem hafa minna en 15 tonn í veiðireynslu skuli fá þá veiðireynslu ef þeir flytja sig yfir í krókaaflamarkskerfið. Þeirri viðbót sem verður þar til í aflaheimildum, það er að segja það sem upp á vantar til að þeir hafi 15 tonna veiðireynslu, er síðan jafnað út á allan hópinn þannig að töluverð skerðing mun verða á öllum hópnum vegna 15 tonna lágmarksins sem þarna kemur til. Það mun þýða að við erum farin að halla nær 50% af því sem menn hafa haft í aflareynslu en 60 að mínu viti. Þetta er nú aðferðin. En aðferðin mun örugglega virka. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa veitt lítið á undanförnum árum og eru að gera út einhvern part úr sumri sér til gamans eða af einhverjum öðrum ástæðum, nota lítinn tíma og litla sókn í þessu kerfi, munu auðvitað flytja sig yfir í krókaaflamarkið vegna þess að 15 tonna kvótinn er kannski 12 milljón króna virði. Þeir geta þá selt það sem út af stendur fram yfir það sem þeir hafa verið að veiða á undanförnum árum og haldið svo sínu striki við að veiða það sem þeir hafa veitt; 4, 5, 6 tonn. Þetta er hið besta mál fyrir slíka aðila. En fram undan er ekkert annað fyrir þá sem lenda inni í dagakerfinu en stöðug skerðing áfram niður. Þetta eru áhrifin af þessari tillögu hæstv. ráðherra. Ég vil segja eins og er að mér finnst ekki mjög líklegt að mikil hrifning sé í sjávarbyggðum yfir þessum tillögum hæstv. ráðherra þar sem þessir bátar hafa verið uppistaðan í atvinnulífi þann tíma sem þeir mega veiða.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra við 1. umr. málsins. Ég fæ tækifæri í sjávarútvegsnefnd til að ræða þetta betur. Ég segi bara: Það er ekki skynsamlegt út frá sjónarmiðum atvinnu og byggða að velja þessa leið. Mér finnst það líka svolítið köld gusa framan í þá sem hafa stundað þessa atvinnugrein að verðlauna þá sem hafa verið að svindla í þessu kerfi. Það veit hæstv. ráðherra manna best að lítill hópur manna hefur fiskað þvílík býsn á handfæri að til þess eru engar líkur að það hafi komið á krókana hjá þeim allt saman. Þessir menn fara út úr kerfinu með gullið hringlandi í vösunum. Mér finnst að hæstv. ráðherra hefði átt að velja aðra til að verðlauna en þá og það hefði verið hægt að gera. Það hefði verið hægt að komast hjá hlutum eins og þessum. En það hefur svo sem gerst áður í þessu kerfi að menn hafa verðlaunað á sem síst skyldi. Það finnst mönnum líklega allt í lagi.