Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 20:50:56 (8445)

2004-05-17 20:50:56# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[20:50]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson velti því fyrir sér hvort tilboðin, eins og hann orðar það, séu jafngild. Að mínu mati eru valkostirnir jafngildir. Þeir eru jafngildir hvað varðar fiskveiðiheimildirnar eða möguleikana til þess að veiða þorsk og það er það sem skiptir máli út frá sjónarmiði fiskveiðistjórnarinnar. Það gildir einu hvort fiskurinn er veiddur í kvótakerfi eða dagakerfi þegar kemur að því að meta stofnstærðina og aflamarkið. Þess vegna er ekki frá neinum tekið því verið er að veiða ekki 209 þús. tonn eins og aflamarkið segir til um heldur 220 þús. tonn plús vegna þess afla sem hér um ræðir og hann hefur alveg sömu áhrif á stofnstærðina innan og utan kvótakerfisins. Því eru þessi tilboð jafngild hvað aflamarkið áhrærir.

Hvað varðar gólfið þá snerist umræðuefnið milli mín og Landssambands smábátaeigenda um það annars vegar að setja gólf í dagana og hins vegar að takmarka sóknina. Hvernig á að takmarka sóknina? Það er ekki eitthvað sem menn geta verið öruggir með. Þess vegna er öryggisákvæðið sett inn í frv. Öryggisákvæðið er miðað við afla fiskveiðiársins 2002/2003. Þá voru menn að veiða á 21 degi. Nú er gert ráð fyrir að gólfið verði 18 dagar á næsta fiskveiðiári og það eru bara þeir sem ekki vilja raunverulega takmarka veiðina með því að setja gólf í dagana sem ekki eru tilbúnir til að fallast á öryggisákvæði sem er þetta miklu hærra en heimildirnar verða með 18 daga gólfinu.

Loks það að ég telji að eiginfjárstaðan batni við að menn velji að fara inn í kvótakerfið. Hv. þm. á ekki að vera neitt hissa á því að ég telji bæði eiginfjárstöðuna og rekstrarstöðuna verða betri í kvótakerfi en í sóknardagakerfi.