Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 20:53:11 (8446)

2004-05-17 20:53:11# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi dagana. Ef að líkum lætur miðað við þetta tilboð munu þeir einir verða eftir í dagakerfinu sem hafa lélega viðmiðun. Þeir hafa ekki veitt mikið á þessu tiltekna fiskveiðiári og þeir mega lítið bæta við sig til þess að verða fyrir viðbótarskerðingu. Þetta ákvæði virkar því í raun og veru mjög fljótt til þess að skerða dagana niður fyrir 18.

Það er auðvitað ekki að undra þótt hæstv. ráðherra segi að eiginfjárstaða manna batni þegar þeir fá svona ríflegan kvóta miðað við það magn sem flotanum er ætlað í lögunum. Kvótatilboðið er svo vel útilátið að það bætir eiginfjárstöðuna. Þegar menn reikna út hvað þeir eru með í verðmætum sem þeir geta selt eru það hærri fjárhæðir en það sem menn reikna út í dag þegar menn reikna verðmæti daganna og sérstaklega þegar verðmæti daganna rýrnar frekar en hitt vegna þeirrar óvissu sem er um framtíð kerfisins að óbreyttu. Það er því alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að menn fá meiri verðmæti í hendurnar með kvótatilboðinu og það er gert vísvitandi til þess að lokka menn yfir í það kerfi.