Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 20:54:41 (8447)

2004-05-17 20:54:41# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[20:54]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Frú forseti. Við þurfum ekki að vera neitt ósammála hvað varðar eiginfjárstöðuna. Það er einfaldlega svo að veiðiheimildir í kvótakerfi eru verðmætari en veiðiheimildir í dagakerfi. Það er bara þannig. Það hefur hins vegar ekkert með magn heimildanna að gera, magnið sem er veitt. Það er alveg það sama. Þess vegna skiptir mig engu máli hvað varðar fiskveiðistjórnina hvort magnið er í dagakerfi eða aflamarkskerfi og að það séu meiri verðmæti hjá fiskimönnunum og útgerðarmönnunum í aflamarkskerfinu. Það skiptir engu máli upp á fiskveiðistjórnina.

Síðan varðandi það sem hv. þm. sagði um þá báta sem hann ímyndar sér að verði eftir. Ég veit ekkert hverjir verða eftir eða hvort einhverjir yfir höfuð fara úr kerfinu, að þeir hafi svo litla viðmiðun og þeir geti ekki bætt við sig. En það sem Landssamband smábátaeigenda hefur verið að fallast á í umræðum við okkur og hefur verið með tillögur um sem hann vitnaði í frá því í fyrra, um vélastærðina og rúllutakmarkanirnar, er einmitt gert til þess að þeir sem hafa veitt lítið að undanförnu bæti ekki við sig því eitt af markmiðunum með málinu, og á það hafa bæði smábátaeigendur og ráðuneytið fallist á, er að ná jafnvægi í veiðarnar þannig að þessi hópur báta sé ekki alltaf að bæta við sig veiðiheimildum ár frá ári. Því er tómt mál að tala um það að þeir sem hafa litla viðmiðun hafi ekki möguleika samkvæmt frv. til að bæta við sig vegna þess að markmiðið er að þeir hafi þá ekki og það er markmið sem Landssamband smábátaeigenda deilir með mér og öðrum sem að þessu hafa komið.