Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 20:56:32 (8448)

2004-05-17 20:56:32# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er býsna mikil leikfimi í röksemdafærslunni hjá hæstv. ráðherra. Málið er mjög skýrt. Menn ætluðu að setja gólf og það er ekkert gólf. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Menn ná ekki markmiðinu eða er það ekki markmið ráðherrans að setja gólf? Frv. ber ekki annað með sér en að það hafi aldrei verið markmið ráðherrans að setja gólf og hann náði ekki samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda eins og að var stefnt og verkefni hans var. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að það er ekkert gólf. Og þegar menn ná ekki meginmarkmiðinu sem að er stefnt er ekki von að menn nái saman. Hæstv. ráðherra þarf einfaldlega að gera betur. Ég tel að hann hefði átt að reyna betur í þessum efnum.

Ég vil svo segja af því að ég hafði ekki tíma áðan til að svara fyrsta atriðinu sem hæstv. ráðherra var með í fyrra andsvari að það er auðvitað mikill munur á því hvort sú veiði sem dagabátarnir í dag eru með á síðustu árum er eins og það er gert eða hvort menn færa það inn í kvótakerfið og færa veiðiheimildir á milli útgerðarflokka eins og stendur til með þessu frv. Það er frá öðrum tekið, hitt er það ekki. Alveg eins og línuívilnun var sett þannig inn að hún er dregin frá aflamarki aflamarksskipa en hins vegar er hafróaflinn og annað slíkt ekki dregið frá neinu því það er afli sem er utan við það sem ákvarðað er til aflamarks. Hæstv. ráðherra veit að það skiptir auðvitað sköpum varðandi það hvort friður er um niðurstöðuna eða ekki hvort menn rýra veiðiheimildir annarra báta á móti veiðiheimildum þeirra sem verið er að laga málin fyrir.