Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:09:32 (8454)

2004-05-17 21:09:32# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:09]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var alveg með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formann sjávarútvegsnefndar flytja ræðu sína. Ég trúði varla mínum eigin eyrum. Hann sagði að þessi breyting mundi leiða til aukinnar sáttar. Sáttar um hvað? Hefur hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formaður sjávarútvegsnefndar, ekki lesið þær umsagnir sem hafa borist nefndinni um frumvarp Frjálslyndra flokksins og Vinstri grænna um að setja 23 daga gólf, um að staðið yrði við loforðin, dýru loforðin úr kosningabaráttunni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ekki síst í Norðvesturkjördæmi? Hefur formaðurinn ekki lesið þessar umsagnir? Þær eru nánast einróma frá félögum trillukarla allt í kringum landið og hagsmunasamtökum þeirra og snúast um það að þeir styðja þetta frumvarp. Þeir styðja 23 daga gólf og vilja ekkert annað. Svo er verið að tala um að það verði einhver sátt. Heyr á endemi! Ég held líka að hv. þm. ætti að kynna sér ályktanir Landssambands smábátaeigenda síðustu mörg undanfarin árin.

Einróma, hæstv. forseti, allt í kringum landið eru trillukarlar sammála um að verja beri gólf fyrir dagabátana og að þetta gólf eigi helst að vera 23 dagar. Síðan eru aðrar óskir, til dæmis þær að menn fái að haga sókn sinni eftir eigin höfði og þeir fái að róa allan ársins hring ef þeir kæra sig um. Ég tel að ef farið yrði eftir þessum óskum frá því fólki sem hefur atvinnu sína og lífsviðurværi af þessum bátum mundi nást sátt. Ástæðan fyrir því að aldrei hefur náðst nein sátt um þetta er sú að það hefur verið mjög mikil óvissa í kringum rekstur þessara báta. Hverjum skyldi það nú vera að kenna, hæstv. forseti? Jú, það er hæstv. sjávarútvegsráðherra sem ber fyrst og fremst ábyrgð á því og síðan er það ríkisstjórnin. Flóknara er það ekki.