Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:13:44 (8457)

2004-05-17 21:13:44# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:13]

Guðjón Hjörleifsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði að gefin hefði verið umsögn um eitt frumvarp með 23 daga. En það er ekkert verið að ræða það í dag. Nú er verið að ræða frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra og þar eru tveir valkostir. (Gripið fram í: Umsagnirnar fóru í ...) Eitt er það að stjórnir félaga gefa umsagnir. Svo eru það þeir sem eru í þessu kerfi og vilja þessar breytingar. Kannski verður niðurstaðan sú að fleiri vilja sóknardaga. Þá er það niðurstaða, ef fleiri vilja fara í aflamarkskerfið. Af hverju ekki að gefa þeim tækifæri til að velja? Af hverju ætlum við að stýra þessu héðan með einhverju afli? Við förum yfir frumvarpið. Þar liggja fyrir tveir valkostir og 292 aðilar kjósa. Hvert verður hlutfallið? Við unum þeirri niðurstöðu þegar hún liggur fyrir. (MÞH: Varst þú ekki kjörinn á þing til að semja lög?) Ég er sáttur við þetta frv.