Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:12:26 (8471)

2004-05-17 22:12:26# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:12]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mér tekst ekki að gera mig skiljanlegan gagnvart hv. þingmanni. Ég hef tekið eftir því að þegar hann vitnar í það sem ég hef sagt og skrifað er það yfirleitt í formi einhvers konar útúrsnúnings þannig að það út af fyrir sig kemur mér ekkert á óvart. En ég taldi mig hafa talað býsna skýrt í þessum efnum.

Ég fór yfir þetta mál, ég gerði grein fyrir sjónarmiðum mínum, gerði grein fyrir því ... (Gripið fram í.) --- ég er að tala hérna, ég fór yfir þetta mál og útskýrði nákvæmlega hvernig þessu viki við. Ég sagði líka áðan að aðalatriðið, eins og niðurstaðan var í þessum efnum, væri það að hér væri um að ræða jafngilda eða sambærilega kosti og þá mundu auðvitað útgerðarmennirnir velja á þeim grundvelli. Ég er alveg sannfærður um að við slíkar aðstæður sé hægt að búa til útfærslu á þessu frv. sem tryggir nákvæmlega þá hagsmuni sem ég vil tryggja, þ.e. hagsmuni byggðanna í kringum landið.