Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:16:00 (8473)

2004-05-17 22:16:00# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:16]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sló einn varnagla í ræðu minni áðan þegar ég var að tala um þessa jafngildu kosti og sagði, sem er auðvitað tilfellið, að það er ekki alveg einfalt að bera þetta saman. Það er t.d. alveg ljóst mál að sá sem fer í krókaaflamarkið og fær að veiða á línu er út af fyrir sig búinn að fá ákveðið forskot í þeim efnum. Hann getur veitt fleiri tegundir, hann getur veitt yfir lengri tíma á árinu, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan, og þar fram eftir götunum. Það er ekki einfalt að bera þetta saman.

Ég held að þegar maður skoðar þetta svona eigi samt sem áður að vera hægt að búa til einhverja grófa nálgun sem geri það að verkum að ekki eigi að vera lakari kostur að veiða í kerfi með dögum og gólfi en í kvótakerfi enda höfum við séð að menn hafa verið að velja sig inn í þetta kerfi, menn hafa kosið á fyrri stigum að veiða eftir þessu kerfi jafnvel þótt þeir hafi vitað að lögin gerðu ráð fyrir því að dögunum mundi fækka. Alþingi hefur að vísu stöðugt verið að grípa inn í. Við höfum verið að bæta í degi aftur, stoppa fækkunina, búa til klukkutímakerfi o.s.frv. Engu að síður tóku menn áhættuna á sínum tíma, 300 manns, og kusu að berjast í þessu kerfi.