Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:25:55 (8482)

2004-05-17 22:25:55# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:25]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kaupi ekki þessar skýringar hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og bendi á að nú þegar fyrirfinnast miklir reglugerðarbálkar sem samdir hafa verið í sjútvrn., einmitt um gerð og búnað veiðarfæra og útbúnað skipa. Það er mjög löng hefð fyrir því að ráðuneytið sjái um þessa tegund reglugerða. Ef hv. þm. vill hins vegar fá einhverja lagasetningu og lagasmíð í kringum þetta skal ég meira en gjarnan taka þátt í þeirri vinnu með honum. Það er ekkert mál. Ég væri alveg til í það þannig að það sé á hreinu.

Annað sem mig langar til að spila inn og spyrja hv. þingmann um er að við höfum sagt að við værum reiðubúnir til að fella út ákvæðið í frv. okkar um fjölgun um einn dag fyrir hver 20 þús. tonn umfram 230 þús. tonna heildarkvóta af þorski á ári. Þá standa eftir þessir 23 dagar og síðan þá möguleikinn á að við förum út í að skoða sóknargetuútfærslu á bátunum. Mér sýnist að þá sé ekkert mjög langt í að við náum saman, ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, um nýja lagasetningu.