Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:27:06 (8483)

2004-05-17 22:27:06# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:27]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði áðan, það eru ansi miklir reglugerðarbálkar í lögum um stjórn fiskveiða. Við höfum mjög mörg frekar haft áhyggjur af að þetta sé fullmikið en að bæta ætti í. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni að svo skuli böl bæta að bíði annað verra, það skuli bara bæta í reglugerðafrumskóginn, að úr því að hvort sem er sé til ansi myndarlegur skógur handan við hornið eigum við bara að planta fleiri trjám í þennan frumskóg þannig að hann verði enn þá flóknari og torveldari umferðar. (Gripið fram í.) Ég held að þvert á móti þurfum við að grisja þennan skóg.

Hv. þm. bauð mér upp á að við færum að semja ný lög úr ræðustólnum. Ég ætla ekki að gera það. Ég er í ríkisstjórnarsamstarfi og mun á þeim vettvangi fyrst og fremst reyna að beita mér fyrir því að við breytum þeim lögum sem við viljum breyta en ég held að við gerum ekki pólitískt samkomulag úr ræðustólnum um þessi mál, hv. þingmaður.