Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:48:22 (8485)

2004-05-17 22:48:22# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða frv. sjútvrh. um breytingu á veiðikerfi svokallaðra sóknardagabáta sem oft eru nefndir handfærabátar. Margt hefur verið dregið inn í umræðuna varðandi þá, m.a. vakti hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson athygli á því að talsverður hluti þess afla sem kæmi á land á sumartíma væri ekki endilega unninn úti á landsbyggðinni þar sem hann bærist að landi heldur væri hann fluttur til um langan veg og ef ég man töluna rétt voru m.a. um 1.700 tonn unnin í Reykjavík.

Það er alveg hárrétt að þessi afli flakkar um landið því að mikið af honum er boðið upp. Eins og lög gera ráð fyrir stunda menn annars vegar þessar veiðar miðað við það að liggja við bestu fiskimiðin og miðað við fiskigengd eins og menn þekkja hana og hins vegar veðurfar. Það er líka ljóst að menn landa þessum afla í höfnum þar sem er sáralítil fiskvinnsla eða var a.m.k. til skamms tíma. Við getum nefnt Stykkishólm þar sem var sáralítil fiskvinnsla, mikil skelfisksvinnsla hins vegar, en vegna hruns skelfisksstofna hafa menn núna verið að efla þar fiskvinnslu. Þar hefur jafnan verið landað á undanförnum árum 250--350 tonnum af fiski af handfærabátum samkvæmt svari sem sjútvrh. gaf við fyrirspurn hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um þróun aflamarks og veiðar smábáta. Brjánslækur, þar hefur verið landað um 200 tonnum, þar hefur ekki verið fiskvinnsla. Á Haukabergsvaðal hefur verið landað 70--80 tonnum, þar hefur ekki verið fiskvinnsla. Á Arnarstapa hefur verið landað 300--400 tonnum en ég held að ekki hafi verið mikil fiskvinnsla þar. Það má nefna fleiri staði. Við Norðurfjörð á Ströndum hefur verið landað hátt í 700 tonnum, þar er ekki fiskvinnsla. Skagaströnd, landað þar á síðustu tveimur árum yfir þúsund tonnum. Þar var ekki fiskvinnsla, búið að stofna þar saltfisksvinnslu núna og loka rækjuverksmiðjunni sem var. Þar var lítil fiskvinnsla. Siglufjörður, ég hygg að þar hafi verið frekar lítil fiskvinnsla. Þó er sennilega búið að opna þar fiskvinnslustöð seinni árin.

Það var gert út frá ýmsum stöðum þar sem ekki var endilega mikil fiskvinnsla. Því var eðlilegt að afli sem þar kom á land væri ekki endilega unninn á stöðunum en hann skapaði hins vegar mikla vinnu bæði í höfnunum og við þjónustu við þessa báta. Hún skipti verulega miklu máli. Mér er fullkunnugt um stöðu manna á Skagaströnd t.d. þar sem smábátaútgerðin hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þess að það hefur verið mikill fiskur á Húnaflóasvæði, Hornbankasvæði og Skagagrunni. Hefur verið reynt að sækja hann frá Skagaströnd, sérstaklega þegar líður á sumar. Menn hafa miklar áhyggjur á þeim stað af því hvað verði ef svo fer að mikill fjöldi þeirra báta sem núna eru gerðir út á handfæraveiðar og hafa sóst í að vera á þeim svæðum þar sem mestur afli hefur fengist vegna dagakerfisins fer að færast til. Ekki síður hafa menn áhyggjur af því hvað gerist þegar þessi kvóti er orðinn að söluvöru eins og annar kvóti í kvótakerfinu. Við höfum séð hvernig þróunin hefur orðið á undanförnum árum þegar smábátarnir hafa verið kvótasettir, og það hefur gerst nokkrum sinnum, að mikil samþjöppun hefur orðið og uppkaup á aflaheimildum þessara smærri báta. Menn hafa ekki getað kortlagt það en greinilega hefur komið í ljós hvernig það hefur átt sér stað. Það er eitthvað sem menn þurfa að hafa miklar áhyggjur af, þegar búin er til þessi leið sem sjútvrh. er með hér, að setja upp kerfi þar sem mönnum er ætlað að velja, og sérstaklega þegar valkostirnir eru ekkert jafnir. Það er það sem menn þurfa að leggja sérstaka áherslu á, að valið eins og það kemur mér fyrir sjónir er bundið. Í dagakerfinu er boðið upp á 18 daga og síðan fækkun. Ætla má að þeir sem eru með mestu veiðireynsluna velji sig út úr sóknardagakerfinu og það er ekki víst að dagakerfið sem eftir verður verði mjög aðlaðandi.

Þetta vildi ég almennt segja um tillögu hæstv. ráðherra. Ég held þó að líka sé nauðsynlegt að hæla ráðherranum fyrir eitt, og segja það alveg hreinskilnislega, að það er mikil framför af hálfu hæstv. sjútvrh. að hann skuli nú hafa viðurkennt að hin gamla og handónýta viðmiðun upp á 2 þús. tonn af þorski sem ævinlega voru ætluð þessum flota er nú farin fjandans til. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það og vona að ég sjái þá viðmiðun aldrei aftur. Það er sem sagt búið að taka inn í þessa viðmiðun rúm 11 þús. tonn, fiskveiðiaflann á árinu 2002/2003, og fyrir það ber að þakka. Loksins er búið að viðurkenna raunveruleikann í þessum veiðum. Það er leitt til þess að vita að sjútvrh. hafi þurft svona rosalega mörg ár til að átta sig á þessu en samt ber að gleðjast yfir því þegar sellurnar virka. (Sjútvrh.: ... á ári.) Menn eiga að eiga það sem gott er og núna liggur fyrir að það er búið að viðurkenna þessa viðmiðun upp á 11 þús. tonn. (EKG: Er þá ekki ráðherrann orðinn óábyrgur?) Ja, ég hugsa að LÍÚ finnist hann frekar óábyrgur, enda snerust þeir allt í einu 180 gráður, menn sem eru búnir að mæla með því að þessi floti verði kvótasettur út á einhverja viðmiðun, 2 þús. tonn. (JBjarn: Er hann ekki vanhæfur? Það er svo í tísku núna.) Þeir eru algjörlega á móti því að sú leið verði farin þegar á að fara að miða við raunverulega veiðireynslu. Þeir hafa hins vegar sjálfir í gegnum alla sína tíð krafist þess að fá viðmiðun af allri sinni veiðireynslu, hvort sem hún hefur verið í úthafskarfa, kolmunna, norsk-íslenskri síld, rækju, hverri viðbót sem þeir hafa fengið. Þegar þeir voru með allan íslenska flotann sem leiguliða og við vorum uppi í Smugu að mynda nýjan veiðirétt skyldi alltaf LÍÚ fá fyrir skipin sín úthlutun miðað við veiðireynsluna þótt aðrir hefðu haldið saman útgerðinni á Íslandsmiðum með því að borga þeim sérstakan arð fyrir að nota þær heimildir sem þeir notuðu ekki sjálfir. Það var auðvitað líkt þeim að þeir skyldu núna snúa blaðinu algjörlega við þegar sjútvrh. loksins viðurkenndi að það yrði að taka raunviðmiðun við afla þessara báta.

Ég fór mjög gaumgæfilega yfir þetta í grein sem ég skrifaði í Fiskifréttir fyrir nokkru síðan. Ég dró þar fram skilmerkilega hvernig ávallt hefur verið miðað við raunafla þegar menn hafa verið að leita að viðmiðun í flotaeiningum og notuð einhver tala sem gaf heildaraflann miðað við það. Það ber auðvitað að þakka það sem vel er gert og við erum þá a.m.k. komin á þann stað að við erum að tala um sóknarkerfi út frá þessari raunveruleikaviðmiðun upp á 11.700 tonn sem var á síðasta ári, hæstv. ráðherra.

Frammi fyrir þessu stöndum við en mér finnst hins vegar að uppsetningin á sóknardagavalinu sé ekki aðlaðandi eins og hún er sett upp. Það verður auðvitað að skoða alveg sérstaklega í sjútvn. þessa daga eins og þeir eru settir upp sem val á móti kvótaúthlutuninni. Þeir eru algjörlega óásættanlegir að mínu viti, ekki síst þegar ráðherrann er líka búinn að setja inn í takmörkun á rúllufjöldanum á hvern bát sem þýðir auðvitað sóknarminnkun. Það var svar manna við sóknardagahækkuninni að bæta við rúllum og ná meiri afla.

Ef það er beint samhengi milli vaxandi hestaflafjölda og afla svo sem ráðherrann sagði áðan má ég þá spyrja til baka: Ef menn mundu minnka vélina, ætti þá ekki að láta þá hafa fleiri daga? (Gripið fram í: Árar.) Segjum bara að einhver færi úr 300 hestöflum niður í 100, verða menn ekki að vera samkvæmir sjálfum sér og fara í báðar áttir? Það getur ekki verið að menn reikni bara í aðra áttina. Það verður þá að vera svo ef það á að miða við hestaflatöluna. Ég vildi vekja athygli á þessu.

Ég legg mikla áherslu á að ég tel útfærsluna varðandi sóknardagana mjög ósanngjarna og órökstutt að útfæra hana eins og hún er. Þar fyrir utan --- ég mun koma að því í máli mínu að ég er almennt ekki hlynntur því að breyta þessu kerfi yfir í aflamarkskerfi. Fyrir því eru margar ástæður, m.a. sú sem hv. þm. Jón Gunnarsson vék að áðan. Það fer ekkert á milli mála að afli handfærabátanna í sóknarkerfi er mæling á aflabrögðum, mæling á fiskmagni í hafinu. Ekki ómerkari stofnanir en Hafrannsóknastofnun hafa viðurkennt að það yrði að viðhalda stofnmælingu með sóknarmælingu í botnfisksveiðum, trolli, til að fá viðmiðun við dreifingu afla og aflamarks á Íslandsmiðum. Það er líka gert í netarallinu. Menn hafa stuðst við það og í sóknardagakerfi handfærabátanna höfum við haft sjálfvirka aflamælingu miðað við sóknardaga. Það sem meira er, við höfum séð aflasamsetninguna, við höfum séð árgangaskipanina í veiðinni. Hún er ekki falin eins og stundum kemur fyrir í aflamarkskerfinu. Bæði smáfiskurinn, undirmálsfiskurinn og stærri og millifiskurinn kemur að landi. Þó að menn sækist vissulega eftir að vera í góðum fiski hafa menn engan hag af því að losa sig við smæsta fiskinn.

[23:00]

Við höfum verið með rauntölur í afla handfærabátanna en ég held því fram að við séum ekki alltaf með rauntölur í afla aflamarksskipa. Þar af leiðandi hefur mér stundum fundist að LÍÚ sæi ofsjónum yfir því þegar verið er að bera saman ólík kerfi sem gæfu ólíka aflasamsetningu. Það var talað um að það væri vont í sóknarkerfi að menn ykju vélarafl og afkastagetu. Má ég benda hæstv. sjútvrh. á hans eigin skýrslu? Þú hlýtur að kannast við þessa, hæstv. ráðherra. (Sjútvrh.: Hún var fyrir mína tíð.) Ja, hún er úr ráðuneytinu. (Sjútvrh.: Já.) Hér er sýnt vélarafl skipa yfir 10 brúttólestum, og hvernig hefur það þróast frá dögum kvótakerfisins? Miðað við 340 hér og upp í tæplega 400 árið 1997. Þróunin er þessi í útgerðinni, að menn hafa verið að auka aflið, og í þessu línuriti erum við eingöngu að tala um aflamarksskip, hæstv. ráðherra. Það er bara eins og það er. Ég hygg að menn snúi því ekki aftur á bak að vélarnar eru eins stórar og menn telja sig þurfa að hafa og hafa not fyrir á hverjum tíma. Það er staðreynd máls.

Ég veit ekki hvort menn muna eftir þessu korti þar sem er sýndur landaður afli krókaaflamarksbáta, reyndar fyrir daga kvótasetningarinnar í ýsu, ufsa og steinbít. Hér kemur í ljós að það eru dreifðar byggðir úti um allt land sem höfðu geysilega hagsmuni í þessu kerfi eins og það var meðan það hét þorskaflahámark og það hafði áhrif á hinar dreifðu byggðir þegar kvótasett var í aukategundunum sem var algjörlega ónauðsynlegt eins og dæmin sanna varðandi ýsustofninn og síðan veiðarnar á steinbítnum. Það þurfti ekki, það var vont fyrir okkur og vont fyrir hinar dreifðu byggðir landsins að við skyldum fara í kvótasetningu á þessum aukategundum.

Þá vil ég spyrja, hæstv. ráðherra: Hvað með þann aukaafla sem kemur á handfæri og er ekki þorskur eða ufsi? Í svari hæstv. ráðherra sem ég vitnaði til áðan er nokkur aukaafli, ekki mikill en það er þó aðeins af keilu, karfa og ýsu. Hvað á að verða um þann aukaafla, hæstv. ráðherra?

Fyrr í umræðunni var sagt, ég held að það hafi verið hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, að það væri nauðsynlegt að vita fyrir fram um þá kosti sem okkur stæðu til boða í veiðum. Ég tek algjörlega undir það með hv. þingmanni. Það er auðvitað búið að vera mjög snúið fyrir þá menn sem gera út á sóknardagakerfi í handfærakerfinu á undanförnum árum að hafa þurft að una við það að sitja upp með einhverja viðmiðun aftan úr grárri forneskju upp á 2 þús. tonn vitandi það að textinn í lögunum var þannig að það var sjálfvirk niðurtalning á dögum. Nú er hæstv. ráðherra búinn að viðurkenna í þessu frv. að þessi eldgamla reynsla, sem ég reyndar benti á í skrifum fyrir nokkru síðan, væri ósanngjörn. Henni hefur verið hent og ný viðmiðun tekin inn miðað við fiskveiðiárið 2002/2003 sem mig minnir að sé um 11 þús. tonn. Við stöndum þá uppi með það að þessi smábátafloti, handfæraflotinn, er búinn að öðlast nýja viðmiðun. Þá er ákaflega fróðlegt fyrir smábátamenn að velta fyrir sér hvort þeir séu ekki í ágætri stöðu með því að velja daga, allir sem einn. (JBjarn: Það held ég nú. Jæja.) Hvaða tala kemur út úr því? Ætli það sé ekki sama tala og viðmiðunartalan?

Það verður, hæstv. ráðherra, að breyta þessu frv. yðar. Það er algjörlega óásættanlegt að reyna að segja mönnum að þeir hafi tvo jafna valkosti og það er bara annar sem gefur helling af peningum. Það er verið að hengja upp gulrót. Ég hef bara orðað þetta svo að það er verið að bera fé á menn til að láta þá velja. Það er ekki jafnt val.

Ég hef líka komið að því að það skipti verulegu máli fyrir byggðir landsins að viðhalda þessu sóknarkerfi, þetta skipti verulegu máli til þess að ungir og kraftmiklir menn eigi möguleika á að komast inn í kerfið. Það þarf talsverða líkamsburði og dugnað til að standa í þessum veiðum og ungir og kraftmiklir menn treysta sér til að kaupa sig inn í þetta kerfi í þeirri vissu að þeir hafi burði og kraft til að gera betur en sá sem er að selja. Það er samt ekki eins og menn þurfi að fara út úr því sem fátæklingar. Hafi þeir staðið sig sæmilega í veiðunum á sínum ferli ættu þeir eftir nokkur ár í dagakerfinu að vera með skuldlitla eða skuldlausa báta. Eins og hér kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan eru menn að tala þar um einhverja tugi milljóna fyrir sölu báts með dögum. Það er ekki eins og menn lepji dauðann úr skel við það og ég tel að ekki eigi að hengja upp þessa gulrót með kvótaúthlutuninni og láta menn velja það því þá er aðeins verið að hygla þeim sem hafa haft ákveðna viðmiðun á undanförnum árum. Það er ekki verið að hugsa um hvaða afleiðingar það hefur á byggðir landsins, hvað gerist í hinu dreifðu byggðum þegar útgerðarmynstrið breytist. Það er ekkert verið að hugsa um fólkið sem býr í þessum byggðum, sem hefur haft atvinnu af því að þjónusta þessa báta, taka við þessum afla eða vinna hann. Það er enn á ný fyrst og fremst verið að hugsa um það að þeir sem hafa verið að gera út, hafa búið til viðmiðun, geti valið sér hana og fái fyrir það talsvert mikið fé. Þess vegna orða ég það svo að verið sé að bera fé á menn. Þetta verður að mínu viti eitt höggið enn þá fyrir landsbyggðina og ekki er á bætandi.

Ég vil enda ræðu mína á því að vitna í orð Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsfl., hv. þm. Hjálmar Árnason, (HjÁ: Ég er að hlusta.) sem sagði fyrir stuttu að nú væri komið að norðvesturhluta landsins. Þar yrði að taka á til að bæta hag fólksins.