Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:08:45 (8486)

2004-05-17 23:08:45# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:08]

Hjálmar Árnason:

Virðulegur forseti. Hér hafa verið haldnar margar langar og (GAK: Skemmtilegar ræður.) skemmtilegar ræður, sumar hverjar. Ég tel að málið sé afskaplega vel reifað, enda styttist óðum í það, ekki nema fáeinir klukkutímar í að sjútvn. muni taka það til frekari skoðunar og fara að hlýða á þá sem málið tengist.

Ég lít, virðulegur forseti, svo á að það frv. sem hér er verið að fjalla um byggi, eins og fram hefur komið, á viðræðum hæstv. sjútvrh. við Landssamband smábátaeigenda og einstaka hópa í þeim geira, getum við sagt, meðal smábátaeigenda. Aðalmálið sem við öll hv. þingmenn hljótum að horfa á, hvort heldur við erum að ræða um smábáta eða aðra, er að finna lausn sem leiðir til aukinnar sáttar innan greinarinnar. Þegar við segjum ,,aukinnar sáttar innan greinarinnar`` er það ekki síst innbyrðis, meðal krókakarla, en ekki síður á milli litla kerfisins og stóra kerfisins sem oft eru kölluð. Það hlýtur að teljast einn veikleiki greinarinnar, sjávarútvegs, það stríð í rauninni sem lengi hefur staðið illu heilli milli þessara tveggja kerfa og þeirra sem það stunda. Ef það frv. sem hér er til umræðu og afgreiðslu er skref í þá átt að auka á sátt innan greinarinnar er það mikilvægt skref.

Hér í umræðunni hafa verið nefndar samþykktir frá Landssambandinu og einstökum félögum innan þess um smíði gólfs í dagakerfið. Það byggir auðvitað á því að þeir sem hafa verið í dagakerfinu hafa búið við gífurlega mikla óvissu, vitandi það að með hverju árinu sem líður fækkar dögum. Menn hafa bent á ýmsar skynsamlegar lausnir í því. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér tvær leiðir og er væntanlega niðurstaða af þeim viðræðum sem fram hafa farið milli hæstv. sjútvrh. annars vegar og hins vegar aðila í smábátakerfinu þar sem gert er ráð fyrir því að smábátasjómenn, þ.e. þeir sem eru á núverandi dagakerfi, geti valið, þeir eigi þetta val sem hér hefur verið nú um hríð til umræðu, megnið af þessum degi, og hins vegar gólfið sem sumir kalla að sé reyndar nokkuð veikburða vegna þess að í því eru innbyggðar ákveðnar takmarkanir.

Hvor þessara leiða er sú réttari (Gripið fram í: Hvorug.) er spurning og ég heyri ekki betur en að ýmsir hv. þm. telji sig hafa það svar á reiðum höndum, patentlausnina á því. Auðvitað er ekki um neitt einfalt svar að ræða frekar en með önnur þau fjölmörgu skref sem stigin hafa verið til að breyta því fyrirkomulagi sem við búum við í sjávarútveginum. Það sem mér finnst skipta mestu máli hvað þetta frv. varðar er að dagakarlar eigi val, þeir geti valið. Mér finnst þar skipta miklu máli eins og hv. þm. vita að fyrir liggur yfirlýstur vilji margra þeirra sem nú eru í dagakerfinu að þeir vilja fá að velja, og fá þá að velja sig inn í kvóta. Mér finnst að auðvitað beri okkur þá skylda til að leggja við hlustir og taka tillit til þeirra sjónarmiða.

Það er líka rétt, virðulegur forseti, að draga það fram hér að við erum í sjálfu sér ekki að taka neina nýja prinsippákvörðun, einfaldlega vegna þess að prinsippskrefið um það að krókakarlar geti valið sig inn í kvóta hefur verið tekið. Fjölmargir völdu sig inn í það. Þess vegna er rökrétt að velta upp spurningunni: Hvers vegna skyldu þeir sem enn eru eftir í dagakerfi ekki einnig fá að velja sömu leið? Af því að prinsippskrefið hefur þegar verið stigið. Hér er ekki verið að fara neinar nýjar leiðir í þessu, heldur að bjóða fleirum að fara það sem aðrir hafa áður farið.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna enda eins og ég sagði áðan er afskaplega stutt í að sjútvn. byrji að hnoðast á þessu máli og vinna í því. Ég vil þó draga fram það sjónarmið sem ég sjálfur hef heyrt frá fjölmörgum körlum sem eru í dagakerfinu núna, nefnilega það sjónarmið að í því að vera á dögum felist ákveðið stress. Ég heyrði fyrir örfáum dögum af einum sem var búinn að vera úti í eina 5--6 tíma og fékk lítið. Hann stressaðist auðvitað mjög yfir því sem ég skil vel því að dagurinn nýttist afskaplega illa og hann greip til þess ráðs að stíma í land.

Annað sem fylgir dagakerfinu er það sjónarmið að það er afskaplega lítið fjölskylduvænt. Eins og við vitum eru dagakarlar á þeysistími landshornanna á milli. Þeir elta fiskinn og þegar verið er að ræða um atvinnuöryggi einstakra byggðarlaga í tengslum við þetta eru það ekki rök sem halda því að smábátaflotinn, ekki síst dagabátaflotinn, heldur sig þar sem helst gefur fisk. Það var um hríð við Suðurlandið. Menn voru mikið í Þorlákshöfn, á Suðurnesjum og Hornafirði. Menn hafa verið fyrir vestan, menn hafa verið við Langanesið og þar búa dagakarlar kannski ekki við þær bestu aðstæður sem til eru. Þeir eru fjarri fjölskyldum og það sem er meira er að þeir hafa enga möguleika á því að skipuleggja fjölskyldulíf, sumarleyfi með fjölskyldu sinni eins og flestir aðrir geta gert. Þetta eru sjónarmið sem ég heyri frá körlum sem eru í dagakerfinu núna. Þeir hafa einfaldlega áhuga á því að geta tekið upp annað mynstur til þess að eiga samvistir við fjölskyldu sína, til þess að geta losað sig við þetta stress. Ef þeir hafa ákveðinn kvóta geta þeir frekar sjálfir ráðið því hvenær þeir róa, þeir geta skipulagt jafnvel sumarleyfi, ég tala ekki um veiðiferðir í fallegar íslenskar ár með veiðifélögum sínum eða fjölskyldum. Það sem er kannski mest um vert er að þeir geta miðað róður sinn við þann tíma sem verð á mörkuðum er hæst.

Þetta eru sjónarmið sem við heyrum frá körlum í dagakerfinu og ber auðvitað að hlusta eftir og taka tillit til. Ég skil þess vegna þau sjónarmið þeirra sem vilja velja sig inn í kvóta og að sjálfsögðu skil ég líka og virði sjónarmið þeirra sem kjósa að vera í dagakerfinu með þessu gólfi með sínum takmörkunum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegur forseti, og tel að sjútvn. þurfi að fara gaumgæfilega yfir málið, hlýða á þau sjónarmið sem uppi eru, en ekki síst vil ég nefna það að ef þetta kann að leiða til aukinnar sáttar eru stigin mikilvæg og góð skref fyrir sjávarútveginn.