Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:25:18 (8494)

2004-05-17 23:25:18# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:25]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Nú háttar svo til að ég get kannski frætt hv. þingmann með alveg glænýjum upplýsingum sem hæstv. sjútvrh. veitti mér áðan. Þegar er byrjuð vinna við úttekt á kostum og göllum færeyska kerfisins og vona ég að hv. þingmanni verði nokkuð rórra við þær upplýsingar. Ég vonast til þess að við sjáum þær upplýsingar fyrr eða síðar svo að við getum rætt þær. (SigurjÞ: ... fljótræði ... taka þetta af?)

Hvað svo varðar hitt atriðið --- nú datt úr mér hvert hitt atriðið var sem hv. þm. nefndi í lokin. Það verður svo að vera, það datt úr mér. (MÞH: Það eru óskir dagamanna.) Já, það eru óskir dagamanna. Það er einfaldlega svo að fjölmargir af þessum dagakörlum hafa haft samband og það er einmitt eitt af því sem við þurfum að gera í hv. sjútvn., að kanna hver vilji þeirra er. Sé vilji þeirra virkilega sá, eins og sögusagnir herma skulum við segja, að þeir vilji fara þessa leið, eigum við þá að leggjast gegn því? Eigum við að hunsa þann vilja?