Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:27:44 (8496)

2004-05-17 23:27:44# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:27]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Heldur fannst mér hv. þm. fara út og suður. Þetta frv. snýst einmitt um val á milli tveggja leiða, þ.e. að þeir sem eru í dagakerfi geti valið sér, annars vegar það að fá 18 daga með takmörkunum eða valið sig inn í kvóta. Lengra nær það ekki, eins og hv. þm. var að gefa í skyn, og menn eiga ekki að velja fram eða aftur. Það eru þessir tveir kostir sem á að velja um.

Hvað varðar brottkast hefur komið fram að m.a. með aðgerðum sem hér hafa verið teknar, með breytingum á lögum, hefur stórlega dregið úr brottkasti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi kannski ekki nein vísindaleg rök fyrir því að brottkast sé miklu meira í því kerfi sem við erum með núna eða sóknardagakerfi. Eins og hv. þm. veit var brottkast alþekkt á árum áður þegar hugtakið kvóti var varla einu sinni komið inn í íslenska tungu. Meira að segja eru til margar ljósmyndir af því, frægar af Halamiðum og víðar.