Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:34:54 (8502)

2004-05-17 23:34:54# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:34]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er náttúrlega ekki vitað hvert valið verður. Það á eftir að koma í ljós verði þetta frv. að lögum.

Í annan stað má spyrja hvað gerist þegar búið verður að endurskoða kerfið í heild sinni. Hvað kemur út úr þeirri endurskoðun? Það er eins með öll mannanna verk er lúta að breytingum á fiskveiðistjórninni, þar eru alltaf átök. Og þótt við tækjum allt smábátakerfið til heildarendurskoðunar hygg ég að um það yrðu sömu umræðurnar, jafnvel sömu deilurnar. Ég ítreka að 400--500 smábátar eru á kvóta. Það hefur skapað þeim ákveðið atvinnuöryggi, fjölskylduöryggi og þar fram eftir götunum, þeim sem það völdu. Þess vegna skil ég að einhverjir af dagakörlum skuli vilja fara þá leið því þeir hafa séð reynsluna og þann stöðugleika sem þessu fylgir.

Ég tek samt undir með hv. þingmanni, för okkar til Færeyja var ánægjuleg en þar komu líka fram ákveðnar efasemdir, ekki síst hjá fiskifræðingum í árdaga færeyska kerfisins.