Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:56:31 (8504)

2004-05-17 23:56:31# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:56]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það hefur verið nokkuð áhugavert að hlusta á þingmenn, sérstaklega stjórnarþingmenn, flytja ræður um þetta mál sem er mjög svo mikilvægt fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Það var til að mynda einkar áhugavert að hlusta á hv. 6. þm. Suðurk., Hjálmar Árnason, flytja ræðu sína áðan. Það var ekki að heyra á honum að kosningaloforð hans frá því í vor stæðu lengur en svo að Framsfl. mundi vilja setja gólf fyrir dagabáta í krókakerfinu.

Ég átti satt best að segja, hæstv. forseti, von á því að ræða hv. þm. Hjálmars Árnasonar yrði eitthvað á þessa lund og að það kæmi fram í þeirri ræðu að þetta loforð frá því í vor væri í raun og veru ansi léttvægt og raunar búið að kasta því fyrir róða. Ég gat ekki heyrt betur en að stefna Framsfl. væri eitthvað í þá veru núna að þetta gólf skipti ekki lengur svo miklu máli. Nú skiptir aðallega máli að menn geti valið milli þess að fara í kvóta eða einhvers konar dagakerfis sem hefur í raun og veru ekkert gólf eins og skýrt kemur fram í frv. hæstv. sjútvrh.

Til gamans langar mig að draga upp einmitt grein frá því í vor eftir hv. þm. Hjálmar Árnason þar sem fleiri loforð eru tíunduð, loforð Framsfl. í sjávarútvegsmálum, og maður fer virkilega að spyrja sig: Hvaða stefnu hefur þessi flokkur í sjávarútvegsmálum yfir höfuð? Hér talar hv. þm. Hjálmar Árnason um að hann vilji hækka veiðiskyldu upp í 85%. Hann vill taka upp línuívilnun með landbeitingu. Það hefur reyndar verið efnt að nokkru leyti eftir mikið japl, jaml og fuður. Hann vill setja gólf fyrir dagabáta í krókakerfinu, skoða kosti og galla færeyska kerfisins og hann segir hér: Tillaga mín um það var samþykkt á Alþingi í vor. Eftir úttektina getum við svo tekið afstöðu til þess hvort skynsamlegt sé að taka upp kerfið.

Hv. þm. Hjálmar Árnason vildi banna flottroll á loðnuveiðum og hann vildi endurskoða fiskveiðiráðgjöfina með aðild fleiri en Hafró. Þetta var brot af loforðaflaumnum en ekkert af þessu hefur verið efnt nema þá kannski þessi línu\-ívilnun þó að hún hefði verið öll í skötulíki þegar loksins tókst að draga hana út úr híbýlum ríkisstjórnarflokkanna, nánast með glóandi töngum. En það er önnur saga, hæstv. forseti.

Það er líka athyglisvert og rétt að nota þá tækifærið núna til að rifja upp hvað aðrir stjórnarliðar hafa sagt, til að mynda um þetta gólf. Fjölmennur fundur var haldinn vestur á Ísafirði í fyrrahaust, einmitt um línuívilnun þar sem reynt var að fá ríkisstjórnarliða til að standa við þetta loforð sitt. Þessi fundur var haldinn 13. september, mjög fjölmennur fundur í íþróttahúsinu á Ísafirði og hann var haldinn af sveitarfélögum á Vestfjörðum og Eldingu, félagi smábátamanna á norðanverðum Vestfjörðum. Þar voru mættir þingmenn, m.a. allir þingmenn Norðvest., og þar voru fluttar snjallar framsöguræður. Síðan var fyrirspurnum úr sal svarað. Þar kom greinilega fram að Kristinn H. Gunnarsson styður 23 daga gólfið í þetta kerfi og hann ætlar að standa við það loforð. Það kom skýrt fram í ræðu hans fyrr í kvöld, en hvað skyldu hinir stjórnarliðarnir sem voru þarna hafa sagt? Það er einkum og sér í lagi athyglisvert að lesa hvað hv. 9. þm. Norðvest. Einar Oddur Kristjánsson sagði. Guðrún Pálsdóttir, útgerðarmaður á Flateyri, spurði þingmennina, með leyfi forseta:

,,Ég er með spurningu til alþingismanna. Væru þeir tilbúnir að styðja frumvarp um að sóknardagar handfærabáta yrðu aldrei færri en 23 en nú eru þeir aðeins 19?``

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson svaraði: ,,Ég hef margsinnis lýst því yfir að það sé lífsnauðsynlegt fyrir dagabátana að hafa þetta gólf, margsinnis lýst því yfir að ég er tilbúinn að styðja þessa 23 daga og svarið er já áfram, já.``

[24:00]

Hæstv. forseti. Það er varla hægt að orða þetta með skýrari hætti en hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, enda er hann þekktur að allt öðru en því að tala þannig að menn skilji ekki mál hans.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson svaraði sömu spurningu, að vísu með nokkuð loðnari hætti en þó skýrt svo langt sem það náði. Hann sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í vor var langt komið samkomulag á milli stjórnvalda og Landssambands smábátaeigenda varðandi gólf í dagakerfið. Ég hef orðað það þannig að menn voru ekki komnir í höfn með málið en menn voru svona komnir í hafnarkjaftinn. Þetta samkomulag fól það í sér að setja gólf í dagakerfið og jafnframt að stemma stigu við aukningu sóknarmáttar í kerfinu. Ég tel að það eigi að ljúka málinu á þeim grundvelli sem menn voru að ræða þarna saman og ég trúi því að menn geti gert það nú í haust og mundi styðja það.``

Nú í haust og mundi styðja það, sagði hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Nú er komið vor, hæstv. forseti. Það er liðinn heill vetur og nú loksins fáum við að sjá frv. frá hæstv. sjútvrh. en ekki fyrr en það liggur fyrir að frv. Frjálsl. og Vinstri grænna liggur inni í sjútvn. og er tilbúið til afgreiðslu út úr nefndinni. Það er einmitt frv. sem kveður á um það að dagafjöldinn hjá þessum bátum eigi aldrei að fara niður fyrir 23. Ég sagði það í fyrri ræðu minni og segi það enn og aftur, bara svo að það sé alveg skýrt, að við erum reiðubúnir að falla frá ákvæðinu um aukningu í dögum og við erum líka reiðubúnir til að fallast á einhver ákvæði sem takmarka sóknargetu bátanna, bara svo að það sé alveg morgunljóst. Við erum reiðubúnir til að vinna með ríkisstjórnarflokkunum að einhvers konar lausn í þessu máli sem færi í þá átt en við erum ekki reiðubúnir til að taka þátt í kvótasetningu þessara báta. Það skal vera alveg ljóst. Það munum við aldrei samþykkja.

Rætt hefur verið töluvert um að komið hafi fram óskir, einhvers konar óskilgreindar óskir frá smábátamönnum um að þeir vildu fara í kvóta. Ég hef bent á það í andsvörum að ég geti ekki séð þessar óskir í umsögnum frá samtökum smábátamanna allt í kringum landið og heldur ekki í ályktunum sem hafa komið undanfarin ár frá aðalfundum Landssambands smábátaeigenda. Ég tel að þetta sé svo mikilvægt mál að jafnvel þó að fram komi óskir frá einhverjum eigendum dagabáta um að vera settir í kvóta eigi alls ekki að verða við þeim tilmælum. Þetta er ekkert einkamál þess fólks sem gerir út og á þessa báta í dag. Þetta er miklu stærra og meira og mikilvægara mál en svo að við getum leyft okkur að hygla einhverjum örfáum eigendum þessara báta á kostnað hinna dreifðu sjávarbyggða á Íslandi. Þetta er miklu stærra mál. Þó að þessir bátar hafi ekki veitt mikið á ársgrundvelli undanfarin tvö ár, 12 þús. tonn og síðan 11 þús. tonn í fyrra, ef ég man rétt, eitthvað þar um bil, þetta eru ekki háar tölur, skipta þeir víða máli, m.a. í Suðurk., kjördæmi formanns sjútvn. Ég er með svar, sem ég hef veifað fyrr í dag, við fyrirspurnum sem ég sendi til hæstv. sjútvrh. í haust, einmitt vegna þess að mig grunaði að frv. um þessa dagabáta væri á leiðinni og ég vildi fá upplýsingar til að nota í umræðunni. Þessar upplýsingar liggja nú fyrir og ég tók saman áðan að gamni mínu hversu mikill afli hefði borist af þessum svokölluðu dagabátum á hafnir í Suðurk. Þetta eru ekki margar hafnir en við höfum þó hérna Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn, Grindavík, Sandgerði, Keflavík og síðan Hornafjörð. Á árunum 1998--2003 lönduðu þessar litlu trillur í þetta kjördæmi tæplega 3 þús. tonnum af bolfiski. Það munar um minna. Og staður sem heitir Sandgerði, staður sem hefur farið mjög illa út úr kvótakerfinu, er hæstur af þessum höfnum. Þar hafa menn verið að landa á bilinu 200--240 tonnum á þessu tímabili. Það munar um minna á þessum stöðum. Og ætlum við að slá þetta bara af? Ég segi nei. Ég segi að það komi ekki til greina. Þetta kerfi hefur sannað sig og sýnt að það er fyllilega þess virði að við leyfum því að lifa áfram. Við þurfum að hlúa betur að því, við þurfum að bæta það, ég skal viðurkenna það og ég er reiðubúinn að taka þátt í þeirri vinnu af heilindum en að ætla að fara að slá þetta af, kvótasetja það, kemur ekki til greina.

Ég vil svo að lokum ráðleggja þeim sem fylgjast með umræðunni að lesa ágæta bók sem mér áskotnaðist á dögunum. Hún heitir Þeir fiska sem róa, smábátaútgerð á Íslandi, og kom út í fyrra. Þetta er afskaplega stórt, mikið og vandað rit og þegar maður flettir því og les það sér maður einmitt hvað þessir smábátar skipta gríðarlega miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.