Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:06:01 (8510)

2004-05-18 10:06:01# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að alþingismenn viti hvaða vinna bíður þeirra á næstu klukkustundum og næstu dögum. Maður veltir fyrir sér hvort þetta er liður í einhverri hertækni, í sálrænum hernaði gagnvart þinginu, að halda því í stöðugri óvissu um hvað bíður næstu klukkustundirnar.

Við fréttum í gær að samkomulag hefði náðst milli stjórnarflokkanna um fjölmiðlamálið svokallaða. Síðan kom í ljós að þetta samkomulag er fyrst og fremst á milli formanna flokkanna. Það hefur aldrei verið betra, lýsti hæstv. forsrh. yfir. Síðan fá landsmenn að heyra, þar með að sjálfsögðu alþingismenn einnig, í fréttum í morgun að bullandi ágreiningur sé enn um málið. Málið er enn í bullandi óvissu. Varaformaður allshn., sem er framsóknarmaður, segir að frá sinni hálfu sé málið í fullkominni óvissu.

Málið hefur ekki verið kynnt eða rætt í allshn. þingsins. Þess vegna er eðlilegt að þingið fái að vita af hálfu stjórnar þingsins hvað bíður þess á næstu klukkustundum.