Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:10:40 (8513)

2004-05-18 10:10:40# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það hefur gætt nokkurrar ónákvæmni í umræðum eins og gengur. Til að mynda var það ekki rétt að för mín til Bessastaða væri sú fyrsta frá heimastjórnarafmæli (ÖS: Og ekki sú síðasta.) og ekki sú síðasta. Ég hef setið þar veislur með sumum hv. þingmönnum frá þeim tíma, mér til mikillar ánægju enda mikill höfðingsskapur þar á bæ eins og kunnugt er og allt gott um það að segja.

Það er einnig rangt sem haldið var fram, að þær brtt. sem hafa verið ákveðnar af flokkunum hafi verið samdar í forsrn. Án þess að mér finnist það skipta máli þá er það ekki heldur rétt. Þær voru samdar hér í þinghúsinu en það breytir svo sem ekki neinu.

Efni þeirra tillagna hefur verið kynnt þannig að það hefur ekki farið fram hjá neinum. Síðan var sagt að það efni yrði fært í form. Ég veit ekki annað en sú vinna liggi fyrir, málið verði kynnt og komi til umræðu með venjulegum hætti. Það er ekkert undarlegt við þetta. Menn tala um að við höfum náð sátt, í fjórða sinn var sagt áðan, ég og formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. Við höfum náð sátt í hundraðasta sinn þess vegna. Það eru bara okkar vinnubrögð, að við tölum um mál og leysum þau. Mér finnst ekkert lakara að gera það fimm sinnum, tíu sinnum, 100 sinnum eða 1000 sinnum. Því oftar því betra. Ef menn muna umræðuna þá sögðum við báðir, bæði ég og hæstv. utanrrh., að eftir 2. umr. þessa máls, sem hefur verið hitamál, mundum við taka á því púlsinn, fara yfir umræðurnar og ákveða síðan næstu skref. Það er nákvæmlega það sem við höfum gert í samræmi við það sem við höfum sagt. Þannig er þetta nú.