Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:12:40 (8514)

2004-05-18 10:12:40# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er kannski ekki margt sem hefur glatt hæstv. forsrh. síðustu daga og því er ánægjulegt að heyra að hann hefur stundað veisluhöld á Bessastöðum sér til nokkurrar ánægju.

Að því er varðar þær tillögur sem nú eru fram komnar þá finnst mér að sjálfsagt mál sé að þær séu lagðar til umræðu í efh.- og viðskn. þingsins. Það hlýtur að verða rætt þar. (Gripið fram í.) Það er kallað fram í að það sé alveg nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt fyrir umræðuna til að við getum farið í hana með þeim rétti sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum. Við hljótum að geta fengið að sjá tillögurnar og ræða þær eftir atvikum við þá menn sem leggja þær fram.

Mér finnst sjálfsagt að hæstv. forsrh. og utanrrh., sem höfundar þessara tillagna, komi í efh.- og viðskn. og skýri frá tilurð þeirra, skýri frá því hvernig þeir sjá þær standast stjórnarskrána. Ég vek eftirtekt á því að hæstv. utanrrh. er ekki öruggari en svo að hann treystir sér ekki í fjölmiðlum til að fullyrða að þetta standist stjórnarskrá. Hann segir hins vegar að hann sé mun öruggari um það nú en áður, sem felur tvennt í sér. Hann hefur í fyrsta lagi fallist á þau rök stjórnarandstöðunnar að í fyrri búning sínum stóðst frv. ekki stjórnarskrána. Í öðru lagi er hann ekki fullviss um að svo sé enn þá. Það hlýtur því að vera sanngjörn krafa að við fáum þetta til umfjöllunar í efh.- og viðskn. Eða er það virkilega svo að kjarkur hæstv. forsrh., eins og bent hefur verið á, sé svo tekinn að þverra að hann þori ekki að leggja þessa afurð sína fyrir okkur þingmenn í efh.- og viðskn. þar sem hægt er að kveðja til sérfræðinga? Af hverju þora þessir tveir menn, hæstv. ráðherrar, ekki að leggja tillögurnar fyrir sérfræðinga? Ástæðan er einföld. Það finnst varla nokkur sérfræðingur á Íslandi sem treystir sér til að fullyrða að þær tillögur standist stjórnarskrá.