Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:16:52 (8516)

2004-05-18 10:16:52# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er alveg óskaplega undrandi á því hvað sumir þingmenn geta verið pirraðir yfir því að frv. sé breytt til batnaðar. Af hverju standa þeir ekki upp og fagna því? Hvað er að þessum hv. þingmönnum? Ég verð ekki var við annað en að í þjóðfélaginu sé sagt að allar þær breytingatillögur sem gerðar hafa verið séu breytingar til batnaðar. En þá hellist eitthvert fúllyndi yfir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Síðan vill hv. þm. Össur Skarphéðinsson að ég komi sjálfur á fund í efh.- og viðskn. Ég hef aldrei komið á nefndarfund á ævi minni. (Gripið fram í.) Það er nefnilega það. Mér er sagt að um þessar mundir séu fundir í efh.- og viðskn. alveg afskaplega sérkennilegir. Kannski væri það hin mesta lífsreynsla fyrir mig að fara að kíkja á lífið í þeirri nefnd. Það mun vera með slíkum eindæmum þegar þeir snillingarnir leggja saman, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og einn ónefndur maður til viðbótar. Svona er þetta nú, einn maður talinn frá eins og sagt er.

Þetta er allt í hinu besta formi og þið þurfið ekki að vera svona fúllynd, ágætu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar.