Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:44:06 (8526)

2004-05-18 10:44:06# 130. lþ. 119.9 fundur 966. mál: #A almannatryggingar# (meðlög, EES-reglur) frv. 78/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Hv. heilbr.- og trn. flytur þetta frv. og standa nefndarmenn einhuga að því. Það er nokkuð flókið að því leytinu til að verið er að bregðast við breytingum á barnalögum og gera Tryggingastofnun kleift að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur. Verið er að bregðast við dómi Evrópudómstólsins og í raun verið að aðlaga lögin væntanlegum breytingum á EES-reglunum hvað varðar meðlagsgreiðslur. Það sem skiptir máli er að Tryggingastofnun hefur haft milligöngu um meðlag og meðlag hefur ekki verið túlkað sem bætur almannatrygginga, heldur sem þjónusta almannatrygginga og hlutverk stofnunarinnar að millifæra meðlagsgreiðslur, þannig að rétthafi meðlagsgreiðslna fái þær tryggilega greiddar.

[10:45]

Vegna breytinganna á barnalögunum sem hér hefur verið gerð grein fyrir féll niður þjónusta Tryggingastofnunar á þessum millifærslum 1. nóvember 2003. Það varðaði heimild Tryggingastofnunar til að millifæra til Íslendinga búsettra innan EES-svæðisins eins og verið hafði því samkvæmt nýjum EES-reglum eiga greiðslurnar og þjónustan að koma frá búsetulandi.

Eftir að hafa farið í gegnum þetta flókna umhverfi tel ég að okkur sé öllum efst í huga að sú þjónusta sem Tryggingastofnun hefur innt af hendi við Íslendinga búsetta innan EES og með sérstökum samningum við Íslendinga búsetta utan svæðisins falli ekki niður og að hægt sé að taka hana sem fyrst upp og því sé mikilvægt að afgreiða frv. á þessu þingi.