2004-05-18 11:05:52# 130. lþ. 119.15 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Frsm. utanrmn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu samningsins milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2004. Nefndin fékk vegna þessa máls á fund sinn fulltrúa frá utanrrn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2004 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 25. og 30. mars 2004.

Í samningnum er, líkt og í samningi sömu aðila á síðasta ári, kveðið á um að færeyskum skipum sé heimilt á loðnuvertíðinni 2004/2005 að veiða allt að 10.000 lestir af loðnu innan lögsögu Íslands úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda. Þá er kveðið á um gagnkvæmar heimildir skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á árinu 2004 og að íslenskum skipum verði heimilt að veiða allt að 1.300 lestir af makríl og 2.000 lestir af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2004 auk ákvæðis um gagnkvæma heimild til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu hvors aðila. Loks er í samningnum kveðið á um gagnkvæma heimild skipa hvors aðila til veiða á norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2004. Samningurinn kveður því á um allar veiðar á uppsjávarfiski í lögsögu hvors aðila fyrir komandi veiðitímabil.

Nefndin vekur athygli á því að áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2004, en þar er um óbreyttar veiðiheimildir að ræða frá fyrra ári. Nefndin telur rétt að benda á að endurskoða þarf samsetningu botnfiskafla með tilliti til aflahlutdeildar og áréttar nefndin ábendingar sínar frá 16. mars síðastliðnum (þskj. 1147, 482. mál) um slæmt ástand lúðustofnsins. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta rita auk framsögumanns hv. þingmenn Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.