Aðild að Gvadalajara-samningi

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 11:14:00 (8535)

2004-05-18 11:14:00# 130. lþ. 119.17 fundur 883. mál: #A aðild að Gvadalajara-samningi# þál. 22/130, RG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs þar sem ég gerði þessa till. til þál. að umtalsefni við fyrri umr. og bar fram allmargar spurningar til hæstv. utanrrh. Mér fannst m.a. dálítið erfitt að átta mig á hvers vegna við hefðum gert þennan góða samning, Varsjársamninginn, 1929. Síðan hafa komið ýmsar bókanir við hann sem við höfum ekki staðfest eða innleitt og einnig nýir samningar síðar. Það var svolítið erfitt að átta sig á þessu máli en það virtist mjög áhugavert og það hefur verið tekið fyrir í utanrmn. Við fengum mjög góða umfjöllun um málið og að mörgu leyti mun ítarlegri en oft um alþjóðasamninga sem við erum að undirgangast. Það er líka athyglisvert að að menn skyldu gefa sér tíma til að fara yfir málið með þessum hætti í utanrmn. vegna þess að það upplýstist í nefndinni að mikill lagabálkur er í samgn. núna og það er einmitt frv. byggt á þessari tillögu. Frv. hefur því komið ögn fyrr en tillagan til þingsins.

Þetta er mikill lagabálkur í samgöngunefndinni og tekur inn allt sem á við þennan samning auk annarra atriða. Mér er ekki kunnugt um hvort afgreiða eigi málið á vorþinginu, fer nú kannski að styttast eitthvað um það, en alla vega er þetta mál komið í fulla vinnslu í Alþingi. Þannig að í þessu tilfelli hefur alþjóðasamningurinn og frv. til nefndar nokkurn veginn fylgst að.

Það verður að segjast eins og er að þegar maður kynnist þessu máli þá kemur í ljós að viðhaldið hefur verið tveimur kerfum sem hafa tekið við af gamla samningnum, þessum Gvadalajara-samningi, og Montreal-samningi sem er með fjórum bókunum sem hafa átt að viðhalda gamla samningnum og vonir standa til að nú verði hægt að losa sig út úr þessum gamla samningi innan áratugar og það verði þá bara einn og einfaldari samningur sem gildir um flugið. Það er mjög mikill ávinningur af því. Það er t.d. verið að taka á því að samningurinn eigi við bæði um samningsbundinn flytjanda og flytjanda í raun á meðan áður voru réttindi bara bundin við þann sem seldi miðann.

Ég vildi bara benda á það af því ég bar upp margar spurningar við fyrri umr. að þeim var öllum svarað í utanrmn. og að þarna er á ferðinni mikill framfarasamningur sem er mikilvægt fyrir Ísland að gerast aðili að og sem full ástæða er til að við lögfestum eins og frv. gerir ráð fyrir sem er inni í samgn. núna.