Samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 11:20:14 (8537)

2004-05-18 11:20:14# 130. lþ. 119.18 fundur 884. mál: #A samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa# þál. 23/130, RG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er annað málið sem hefur nú verið afgreitt úr utanrmn. sem er talsvert stórt og þýðingarmikið fyrir Ísland. Mér finnst því ástæða til að gefa því nánari gaum. Komið hefur fram að aðild Íslands að þessum samningi kallar á lagabreytingar hér á landi. Iðn.- og viðskrh. hefur lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, með síðari breytingum, og iðnn. er með málið til meðferðar.

Virðulegi forseti. Þegar við höfum fengið einkaleyfabreytingar til umfjöllunar á Alþingi hefur kastljósið beinst mjög að því hver staða lyfjaiðnaðarins sé. Það hefur skipt miklu máli fyrir lyfjaiðnaðinn og ekki síst fyrir samheitalyfjaiðnaðinn hvernig þessir samningar voru sem við höfum undirgengist hverju sinni. Það sem er merkilegt varðandi þetta mál og kemur fram núna er að samkvæmt samningnum verður veitt einkaleyfi á öllu evrópska svæðinu á einum stað og það verður eitt tungumál fyrir 30 lönd. Þetta er gífurlega merkilegt og mikilvægt fyrir okkur. Aðildin að samningnum er mikið framfaramál. Það hefur tekið langan tíma að vinna málið og það er öðruvísi vaxið en önnur mál um lyfjaiðnaðinn.

Samningurinn hefur í för með sér að það dregur úr kostnaði. Hann er þess eðlis að engin breyting verður gagnvart stórum lyfjaframleiðendum en hann gæti haft áhrif á minni framleiðendur erlendis um allt svæðið. Áhrifin geta að einhverju leyti verið neikvæð en Evrópusambandið er að rýmka reglur vegna samheitalyfjanna og séu einhver neikvæð áhrif má segja að það vegi þau upp að fá 30 ríkja skráningu á þessu stóra svæði.

Ég vil líka taka fram að mjög mikilvægt er að vera samstiga Evrópusambandinu í einkaleyfamálum. Það var með strangar reglur áður en er nú að slaka á þeim. Fyrir samheitalyfjaiðnaðinn er þetta mál jákvætt áfram, þetta er ekki eitthvað sem hittir hann fyrir. Á sama tíma og það hefur verið mjög mikilvægt á Íslandi fyrir iðnaðinn að samheitalyfjaiðnaður hefur byggst upp þá er mjög gleðilegt að frumlyfjaiðnaður er að byggjast upp líka. Þessi samningur mun skipta máli fyrir hann.

Það er líka mikilvægt að taka fram að umræður um frumlyf á móti samheitalyfjaiðnaði hefur breyst, ekki síst vegna þriðja heimsins. Áður var gífurlega mikið lagt upp úr því að þeim sem hefðu eytt mörgum árum, miklum kröftum og fjármagni í rannsóknir sem leiddu af sér ný lyf væru tryggð einkaleyfi til margra ára til að vernda þessa miklu fjárfestingu. Sú umræða er að breytast vegna þarfa þriðja heimsins þar sem við berum svo mikla ábyrgð. Afstaðan hjá Evrópusambandinu er breytt. Það hefur rýmkað reglur sínar og þrátt fyrir að tími einkaleyfanna sé óbreyttur þá eru reglurnar sem varða rannsókn og þróun frumlyfja rýmkaðar. Samningurinn virðist því mikilvægur fyrir okkur og sömuleiðis er hann mjög mikilvægur fyrir þriðja heims ríki vegna möguleikanna sem í honum felast. Ég vil vekja sérstaklega athygli á því, því það er kannski nýtt, að á Íslandi sé farið að vinna við frumheitalyfjaframleiðslu. Ég vil líka taka fram að það virtist sem þeir sem væru stórir á lyfjamarkaðnum teldu að samningurinn gæti haft neikvæð áhrif en EES-rýmkunin er það jákvæð að hún vegur þau fyllilega upp. Það er talið mjög mikilvægt að afgreiðsla á frv. og samningi geti farið saman.

Ég vel, virðulegi forseti, í tveimur örstuttum ræðum mínum að nefna að þessir tveir samningar sem utanrmn. var að fjalla um og gaf sér góðan tíma í að taka fyrir eru mikil framfaramál. Þegar maður hefur vakið máls á málum af þessum toga við fyrri umr. er ástæða til að koma upp og skýra að örstuttu leyti hvað hefur falist í þeim og hvaða svör komu fram í hv. utanrmn.