Lokafjárlög 2000

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 11:41:47 (8541)

2004-05-18 11:41:47# 130. lþ. 119.12 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir meginhluta gagnrýninnar sem kom fram í ræðu minni varðandi vinnulag og það hvernig þessi mál standa. Ég get líka staðfest að það er rétt að mikil vinna er í gangi til að ná utan um þessi mál. Ég endurtek hins vegar að til vansa er að það skuli ekki hafa náðst fyrr, um sex árum frá því þessi nýju lög tóku gildi.

Varðandi staðfestingu á ríkisreikningi er ég sammála hv. þingmanni um að auðvitað eru það tölurnar í lokafjárlögunum sem standa. Hins vegar fór ég fram á og stend við það að skoðað verði sérstaklega hvort 3. gr. standist, þ.e. þar sem segir að ríkisreikningur sé staðfestur, vegna þess að hann er þá rangur. Af því að hv. þm. vitnaði til Ríkisendurskoðunar og við fengum menn frá þeim á fund nefndarinnar þá er ég ekki alveg viss um að það sé hægt að túlka orð þeirra þannig að það þurfi ekki að gera einhverja breytingu á 3. gr. þar sem hugsanlegt væri að skjóta inn í setningu sem benti á þennan mismun og reynt væri að ná utan um þetta. Það sem kom frá þeim var að núna væri brýnast að reyna að ná þessu saman svo að við gætum haft lokafjárlögin samhliða þegar ríkisreikningur fyrir árið 2003 kemur eins og fjárreiðulögin gera ráð fyrir.

Ég held að við getum ekki leyft okkur að samþykkja eða staðfesta ríkisreikning vitandi að hann sé rangur. Það hlýtur að vera hægt að skjóta a.m.k. einhverjum varnagla inn í 3. gr. þannig að hægt sé að standa að þessu með sóma. Ég endurtek að auðvitað eru það tölurnar í lokafjárlögum sem gilda. Ég er fyrst og fremst að beina gagnrýni minni að 3. gr. vegna þess að þar kemur fram að verið sé að staðfesta ríkisreikning. Það liggur sem sagt fyrir að hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður fjárln., hefur raunverulega staðfest að það er misræmi þarna á milli. Fjmrn. hefur líka staðfest það sem og Ríkisendurskoðun. Mér finnst ekki boðlegt fyrir Alþingi að samþykkja 3. gr. við þær aðstæður.