Lokafjárlög 2001

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:06:34 (8546)

2004-05-18 12:06:34# 130. lþ. 119.13 fundur 653. mál: #A lokafjárlög 2001# frv. 101/2004, Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2001. Ég vil árétta það sem kom fram hjá mér fyrr á þessum fundi og hefur komið fram í umræðunni varðandi lokafjárlög 2000 að á þessu þingi höfum við fengið lokafjárlög fyrir árin 2001 og 2002. Í lögum um fjárreiður ríkisins er kveðið á um að frv. til lokafjárlaga skuli fylgja ríkisreikningi hvers árs þegar hann er lagður fram en svo hefur ekki verið undanfarin ár. Ég vísa í umræðuna sem farið hefur fram um það. Þetta hefur verið gagnrýnt og okkur hefur að sjálfsögðu ekki fundist þetta í lagi því þarna er ekki unnið í samræmi við lög. Ég vil líka að það komi skýrt fram áréttað að í umræðunni hafa komið fram ítarlegar skýringar á því hverju þetta sætir og gerð hefur verið grein fyrir því. Við væntum þess að í haust á haustþingi munum við fá inn ríkisreikning fyrir árið 2003 ásamt lokafjárlagafrv.

Ég vil líka minna á það sem kom fram hjá mér fyrr í þessari umræðu varðandi frv. til lokafjárlaga ársins 2002 að eftir umfjöllun í fjárln. var tekin sú ákvörðun að það mál yrði ekki afgreitt út úr nefndinni vegna ákveðinna hluta sem ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir hér og nú. Það frv. mun koma fram á haustdögum og við munum fjalla um það þegar þar að kemur. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefndi hafa menn heitið bót og betrun og vænti ég þess að við það verði staðið.

Hér liggur fyrir nefndarálit frá meiri hluta fjárln. um frv. til lokafjárlaga ársins 2001. Um þetta mál hefur verið fjallað í fjárln. Til okkar hafa komið gestir frá fjmrn. og Ríkisendurskoðun, og við fengið álit frá Ríkisendurskoðun um málið. Breyting samkvæmt 1. gr. frv. er 1 milljarður 450 millj. vegna frávika ríkistekna frá áætlun fjárlaga og leiðir til hækkunar útgjalda ársins 2001. Afgangsheimildir og umframgjöld sem falla niður samkvæmt 2. gr. eru 6 milljarðar 755,2 millj. kr. Af þessu leiðir að heimildir ársins 2001 eru alls 236 milljarðar 705,4 millj.

Meiri hluti fjárln. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir. Það eru ekki gerðar tillögur til breytinga. Undir þetta álit skrifa hv. þm. Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson og Drífa Hjartardóttir.

Ég vil, hæstv. forseti, í framhaldi af þeirri umræðu sem fram hefur farið um frv. til lokafjárlaga ársins 2000 nefna að hér er um að ræða með sama hætti að það stemmir ekki nákvæmlega saman ríkisreikningur og lokafjárlagafrv. Töluverð umræða fór fram um þetta mál áðan og hv. þm. Einar Már Sigurðarson lagði það til að skoðað yrði hvort ekki væri rétt að gera orðalagsbreytingar á 3. gr. frv., þ.e. sem fjallar um það að frv. verði samþykkt til að staðfesta ríkisreikning. Það er rétt sem fram hefur komið að það stemmir ekki nákvæmlega saman talnalega, niðurstöðutala lokafjárlagafrv. og ríkisreiknings. Ég hef lýst því í þessari umræðu að mér þykir sjálfsagt að það verði gert og ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að leita álits hjá Ríkisendurskoðun um þetta mál. Ég vildi nefna þetta í framsögu minni ef það mætti verða til að stytta umræðuna þannig að þetta mál komi skýrt fram svo ég þyrfti ekki þess vegna að koma upp í andsvörum. Ég veit að frsm. minni hlutans munu taka þetta mál upp. Ég vildi að þetta kæmi fram strax í upphafi umræðunnar.