Alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:27:09 (8550)

2004-05-18 12:27:09# 130. lþ. 119.19 fundur 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Hér er í stuttu máli lýst af hv. frsm. nefndarinnar, Guðmundi Hallvarðssyni langri sögu samninga um loftferðir og við erum að staðfesta hluta af þeim og breytingar á samningum sem gerðir hafa verið annars vegar við hinn upprunalega Varsjársamning frá 1929 og hins vegar Haag-bókunina frá 1955. Allt stefnir þetta mál að því að við séum að nálgast það að komast út úr hinni gömlu fortíð, þ.e. þeim grunni sem lagt var upp með í sambandi við öryggi í flugi varðandi farþega og réttarstöðu þeirra og póstflutninga og fleira. Við stefnum þá til þess að Montreal-samningurinn taki yfir og verði ráðandi samningur um loftferðirnar. Því hagar svo til að ferlið í þessu samningaferli öllu sem lýst var í stuttu máli í þessari framsögu er þannig að það eru í gildi mismunandi ákvæði vítt og breitt um heiminn eftir því hvar í ferlinu ríki hafa verið í að staðfesta breytingar á þessu samningsferli. Þar af leiðandi er það svo að við eru að staðfesta hluta af samningum sem löngu hafa verið gerðir sem munu e.t.v. gilda að einhverju leyti einhvers staðar í veröldinni nk. ár. Vonast er til þess að innan fárra ára muni Montreal-samningurinn algjörlega taka yfir að því er þetta varðar og eldri samningsákvæði sem byggt er á eins og Varsjársamningurinn falli þá endanlega úr gildi og það komi einn samningur sem taki yfir allt þetta samningsferli.

Um þetta segir í greinargerð með þessu frv. á bls. 14, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 55. gr. Montreal-samningsins er gert ráð fyrir að Montreal-samningurinn gangi framar öllum öðrum alþjóðlegum samningum sem gerðir hafa verið um sama efni milli þeirra aðildarríkja sem hann hafa fullgilt. Hinn 4. nóvember 2003 tók Montreal-samningurinn gildi fyrir þau þrjátíu aðildarríki sem þá höfðu fullgilt hann. Montreal-samningurinn mun því gilda varðandi millilandaflug til og frá yfirráðasvæði þeirra til ríkja sem hann hafa fullgilt.``

Hér er verið að lýsa löngu samningsferli og flókið mál að fara inn í og sá sem hér stendur er ekki neinn sérfræðingur í þessu en fékk þó eins og aðrir nefndarmenn í samgn. fyrirlestur um það hvað við værum að gera og staðfesta. Það má reyna að lýsa því ferli með þeim orðum að innan tiltölulega fárra ára munu eldri samningar falla út þó það sé nauðsynlegt að þeir verði í gildi samhliða Montreal-bókuninni um nokkurra ára skeið. Stefnt er að því að einfalda þetta í framtíðinni og út á það gengur frv.