Alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:35:44 (8552)

2004-05-18 12:35:44# 130. lþ. 119.19 fundur 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það komu þrjú mál í einu í hendur samgn. fyrir tiltölulega fáum dögum og skilaboð um að nú yrðu menn að bretta upp ermar og klára þau á mjög stuttum tíma því að stutt væri eftir af þingi. Þá vissu menn ekki hvaða mál kæmu upp á hv. Alþingi þannig að þingið mundi lengjast með þeim hætti sem nú er fyrirsjáanlegt. Ef menn hefðu vitað að tími væri fram undan hefði a.m.k. samgn. haft tíma til að fara meira ofan í þessi mál. Þá á ég kannski ekki sérstaklega við þetta mál heldur hin tvö málin sem við fjölluðum um og við munum ræða um síðar í dag en þessi mál komu sem sagt á sama tíma inn til nefndarinnar.

Í sjálfu sér er dálítið sérstakt að þessi gildistökusamningur skuli ekki vera á forræði utanrmn. Mér skilst þó að hluti af samningunum sem nefndir eru í nefndarálitinu og við fjölluðum um séu á forræði utanrmn. og ég taldi það vera allt saman og við hefðum fengið málið þaðan frá.

Það er í sjálfu sér dálítið merkilegt að hlusta á hvernig svona mál ganga fyrir sig í alþjóðasamfélaginu. Mér fannst alveg ótrúlegt að hlusta á lýsingu Ástríðar S. Thorsteinsson sem kom á fund til okkar þar sem hún var að lýsa vandamálum sem hefðu verið og væru við að koma þessum samningum í höfn og þýðingarvandamál og annað sem fylgir þessu. Það er eiginlega mjög ótrúlegt að um samninga um loftflutninga hafa gilt reglur sem voru settar í árdaga flugsins í heiminum. Þeir hafa verið óbreyttir meira og minna síðan þannig að það er ekki einfalt að ná samkomulagi milli landa um hvaða reglur eiga að gilda í flugi.

Furðu merkilegt má líka teljast hversu framsýnir menn hafa verið að setja þó reglur sem hafa að mörgu leyti haldið prýðilega miðað við það sem var að gerast þegar menn sátu yfir því að búa þær til á sínum tíma. Þá var flugfloti heimsins einungis örlítið prósentubrot eða prómill af þeim flugflota sem nú er í heiminum og flugvélar miklu veigaminni og möguleikar til flugs og flutninga með flugi voru með allt öðum hætti heldur en er í dag. Svona er það í nefndarstarfi þingsins, þá fáum við innsýn í ýmsa hluti sem við hefðum kannski aldrei fengið tækifæri til að kynnast ef við sætum ekki í þessum nefndum.

Auðvitað má velta því fyrir sér hvað hefur dvalið okkur í að staðfesta gildistöku þessa alþjóðasamnings. Það ætti kannski að vera með í umræðunni að menn velti því fyrir sér hvort við höfum staðið okkur nógu vel í að vinna að þessum málum. Sannarlega tel ég að það sé hægt að hafa þau orð um hin tvö málin sem urðu samferða í vinnu samgn. á þessum tíma að þau hefðu gjarnan mátt koma fyrr til umfjöllunar í nefndinni. Þar hefði sannarlega verið ástæða til að taka til hendi og skoða vandlega hvort ekki væri skynsamlegra að standa öðruvísi að málum. Það munum við kannski fara betur yfir þegar kemur að umræðunni um þau mál síðar í dag.

Ég ætla ekki að tefja tíma Alþingis vegna þessa máls því fullkomin sátt er um að staðfesta þennan alþjóðasamning og eins og ég sagði þá ætla ég að ræða betur um hin málin þegar að þeim kemur á dagskránni.