Alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:41:34 (8553)

2004-05-18 12:41:34# 130. lþ. 119.19 fundur 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:41]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nefndarmönnum samgn. fyrir gott samstarf varðandi þetta mál. Það var rétt sem kom fram hjá hv. nefndarmönnum sem töluðu áðan að þetta er geysilega flókið og umfangsmikið mál og ég tek undir það sem þeir sögðu áðan að þeir fyrirlestrar sem við fengum um þennan alþjóðasamning voru mjög þarfir og merkilegir og mjög upplýsandi fyrir samgn. Í hinu flókna ferli samninga hvað áhrærir flutninga á fólki og vörum og með tilliti til þess að farþegar og farmflytjendur væru vissir um að þeirra öryggi væri í hvívetna gætt hefur það náðst með þessum merkilegu samningum sem hafa verið nokkuð lengi í gildi. Ég tek líka undir það sem kom fram að þetta hefur verið allmerkilegt spor sem stigið var í undirritun þessara loftferðasamninga í Varsjá 1929. Menn hafa verið mjög forsjálir þar. En allt um það.

Allt gengur þetta út á að tryggja rétt farþega gagnvart því það eru svo margir söluaðilar sem koma við sögu, það eru leiguflugfélög, ferðaskrifstofur og fleiri aðila. Málið er geysilega umfangsmikið og með ólíkindum hvað þetta er víðfeðmt og þarf til margra átta að líta.

Virðulegi forseti. Ég legg að sjálfsögðu til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 3. umr.