Einkaleyfi

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:25:19 (8561)

2004-05-18 14:25:19# 130. lþ. 119.22 fundur 751. mál: #A einkaleyfi# (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.) frv. 53/2004, EKH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu tengd mál, um uppfinningar starfsmanna, hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og einkaleyfi sem er afskaplega áhugavert svið eins og hv. þingmenn sem hér hafa talað á undan hafa bent. á. Það er ljóst eins og fram hefur komið að auðvitað er mikill kostur að geta núna sótt um einkaleyfi í einni umsókn í þeim 28 ríkjum sem aðild eiga að einkaleyfasamningnum og að það skuli ekki vera meiri kostnaður við það en að sækja um einkaleyfi í þremur ríkjum. Í þessu felast að sjálfsögðu margir möguleikar en eins og komið var að áðan geta verið á því neikvæðar hliðar.

Íslendingar eru orðnir stórframleiðendur á samheitalyfjum og þar hafa menn verið að róa í smugu sem opnaðist hér á landi að mér skilst vegna þess að stórir lyfjaframleiðendur hirtu ekki um að sækja um einkaleyfi á frumlyfjum sínum hér á landi. Það hefur aftur á móti í för með sér að þar sem þannig háttar þurfa menn ekki hér á landi að bíða eftir því að einkaleyfin renni út en geta byrjað að þróa samheitalyf hér áður en einkaleyfin renna út á stórum markaðssvæðum, geta verið tilbúnir með samheitalyf um leið og einkaleyfin renna út t.d. í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi eða annars staðar á stórum mörkuðum og við höfum séð dæmi um það.

Þetta hefur verulega þýðingu því mér skilst að ætla megi að útflutningur samheitalyfja frá Íslandi muni líklega á þessu ári sem nú er hafið svara til u.þ.b. verðmætis alls lyfjainnflutnings til landsins. Þetta eru náttúrlega gífurleg umskipti og gífurleg tíðindi sem orðið hafa í framleiðsluháttum okkar og bera vitni þeirri þekkingu og færni sem hér er í heilbrigðisgeiranum, í því mennta- og þekkingarsamfélagi sem þar hefur þróast að íslenskir lyfjafræðingar hafa myndað fyrirtæki um þetta og sameinast um að nýta þetta tækifæri og þessa smugu. En hún mun smám saman lokast á næstu árum. Mig minnir að ég hafi einhvern tíma lesið að smugan muni smátt og smátt lokast og þessir framleiðsluhættir muni verða nánast útilokaðir eftir 2015. Þá er spurning hvaða áhrif aðildin að einkaleyfasamningnum muni hafa á þennan iðnað hér á landi. Eins og rakið var gætu þau áhrif að einhverju leyti orðið neikvæð, t.d. er nefnt í nefndarálitinu að fjölgun geti orðið á einkaleyfum lítilla erlendra lyfjaframleiðenda hér á landi en á móti komi að Evrópusambandið sé að reka smiðshöggið á frjálslegri reglur um þróun og skráningu samheitalyfja. Þá vaknar sú spurning að sjálfsögðu hvernig reglurnar verði frá Evrópusambandinu og mér finnst kannski ekki nægilega skýrt tekið fram í nefndarálitinu hvort fyrirtæki eins og Pharmaco, nú Actavis, getur þá samkvæmt Bolar-ákvæðinu hafið þróun á samheitalyfjum áður en stór einkaleyfaréttindi renna út eins og verið hefur. Það skiptir að sjálfsögðu máli um framvinduna hvernig því vindur fram og mér þætti fróðlegt ef hv. formaður iðnn., Kristinn H. Gunnarsson, gæti upplýst okkur sem ekki áttum þess kost að hlýða á umfjöllun í nefndinni hvort það hefði verið skýrt nánar hvernig Bolar-ákvæðin mundu virka, hvort staða t.d. fyrirtækisins Actavis verður nákvæmlega eins og verið hefur eða hvort hún breytist og þá með hvaða hætti. Það getur skipt verulegu máli fyrir framhaldið.

[14:30]

Ég er hins vegar alveg sammála því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að auðvitað er ekki hægt að líta á þessa einkaleyfasamninga úr einni átt. Nauðsynlegt er að skoða málið frá ýmsum hliðum og út frá hagsmunum fjölmargra aðila og sem betur fer er atvinnulífið orðið svo fjölbreytt að það eru margir aðrir sem eru að hugsa sér til hreyfings.

Samfylkingin hélt ráðstefnu fyrir hálfum mánuði þar sem rætt var um sóknarfæri og möguleika í heilbrigðisgeiranum sem útflutnings- og atvinnugrein og þar kom fram að fyrirtæki hér á landi eru farin að ástunda þróun frumlyfja og eru kannski einmitt að huga að þeim þætti sem frv. fjallar lítillega um, þ.e. því nýmæli að afnema takmörkun gildandi laga varðandi einkaleyfishæfi þekktra efna og efnasambanda. Þetta skiptir verulegu máli því að samkvæmt því er hægt að fá einkaleyfi á þekktu efni sem hægt er að nota í læknisfræðilegum tilgangi ef fundin er einhver ný notkun á því (,,second medical use``). Það styttir leiðina að þróun nýrra lyfja ef þetta er hægt og það er sá möguleiki sem íslensk fyrirtæki horfa mjög á vegna þess að það er gífurlega langt þróunarferli og óhemju dýrt að þróa ný frumlyf, getur tekið 10--15 ár, og ef hægt er að stytta þann feril með því að finna nýtt notkunarsvið fyrir virk efni sem eru þekkt og eru fyrir hendi þá er það gífurlega mikilvægt. Þess vegna tel ég að þessi breyting á lögunum sé mjög mikilvæg og skipti miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf. Ég held að menn geri sér kannski ekki alltaf nógu vel í hugarlund hvað þetta svið, einkaleyfin, hugverkaréttindin og uppfinningar starfsmanna geta skipt gríðarlega miklu máli. Ein góð hugmynd sem komið er á framfæri getur orðið milljarðaiðnaður. Þess vegna er í rauninni um stórt og mikið mál að tefla sem getur skipt okkur máli. Þess vegna er líka nauðsynlegt, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi, að koma að þessum málum frá mörgum hliðum, frá sjónarmiði utanríkisviðskipta, frá sjónarmiði ýmissa tegunda af framleiðendum en líka að heilbrigðisyfirvöld hafi skilning á þessum þætti málanna.

Það kom t.d. fram að hér var hugmynd um að koma á viðmiðunarverðskrá samanburðarlyfja sem kom upp í deilum um lyfjaverð. Sú viðmiðunarverðskrá átti að taka gildi 1. maí sl. Sem betur fer var henni frestað í þrjá mánuði, ef ég man rétt, og vonandi verður hún aldrei að veruleika vegna þess, eins og glöggur maður sagði í umræðum um þessi mál, að ef þessi viðmiðunarverðskrá þætti lukkast vel og spara einhverjar krónur í ríkisreksturinn á Íslandi og ef hún væri síðan tekin upp í öllum Evrópulöndum þá mundi fyrst og fremst íslenskur frumlyfjaiðnaður og allur evrópskur frumlyfjaiðnaður leggjast niður á nokkrum missirum. Þá mundi væntanlega bandarískur lyfjaiðnaður ríkja einn og varla er það markmiðið með slíkum stjórnvaldsaðgerðum. Þó að við þurfum ekki endilega að samþykkja allt sem lyfjaiðnaðurinn segir og gerir og þar séu náttúrlega uppi söluaðferðir og markaðssetning sem ástæða er til að fylgjast með og hafa varann á sér gagnvart þá er um leið um rannsóknir og þróun að ræða á lyfjum sem bæta líðan og geta sparað mikið í heilbrigðiskerfinu með því að bæta heilsu og lækna mein og þess vegna engin ástæða til að steypa undan eggjunum úr hreiðri þessara fyrirtækja áður en þau fá að klekjast út. Því er einmitt mikilvægt að horfa á þessi mál út frá mörgum sjónarhólum og manni sýnist að það hafi einmitt verið gert á hv. Alþingi og að málin séu hér í tiltölulega góðum farvegi.