Einkaleyfi

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:37:28 (8562)

2004-05-18 14:37:28# 130. lþ. 119.22 fundur 751. mál: #A einkaleyfi# (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.) frv. 53/2004, Frsm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við málið sem og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrr í umræðunni. Varðandi Bolar-ákvæðið sem þingmaðurinn spurði um og áhrifin af aðild okkar að Evrópsku einkaleyfastofunni þá er það þannig að með aðild okkar að þeirri stofnun verður auðveldara fyrir erlend fyrirtæki að fá einkaleyfaskráningu hér á landi og ódýrara. Þetta er tiltölulega þungur prósess eins og er og fyrir erlend fyrirtæki er kannski ekki eftirsóknarvert að sækjast eftir einkaleyfaskráningu á svo litlum markaði sem Ísland er.

Aðildin að þeirri stofnun getur leitt til þess eins og bent er á að erlend fyrirtæki, sérstaklega kannski minni fyrirtæki, sæki frekar um einkaleyfaskráningu hér á landi og það einkaleyfi getur leitt til þess að íslensk lyfjafyrirtæki sem framleiða samheitalyf hafi ekki eins mikið svigrúm til starfsemi sinnar og áður. En á móti kemur í fyrsta lagi að það er auðveldara fyrir íslensku fyrirtækin að fá skráningu erlendis og það er hugsanlegt að þau eigi sóknarfæri sérstaklega í framleiðslu sem þau geta fengið einkaleyfi á í Evrópusambandinu og það getur styrkt þau fyrirtæki. Í öðru lagi er með Bolar-ákvæðinu verið að stuðla að aukinni samkeppni í lyfjaiðnaðinum þannig að fyrirtæki sem framleiða samheitalyf hafi meira svigrúm til framleiðslu og samkeppni en er í dag. Hvernig það verður nákvæmlega útfært er kannski of snemmt að segja um og ég hef svo sem ekki alveg nákvæma texta eins og þeir standa á þessari stundu en það er sjálfsagt að athuga hvað við höfum í þessu skyni en þetta ákvæði mun í meginatriðum styrkja íslenskan iðnað að mínu viti vegna þess að það er verið að hvetja til aukinnar samkeppni innan þessara framleiðslugreina.